Þeir tóku hann í gær

Greinar

Þeir komu og tóku hann í gær. Harðvítugasta kerfi umburðarleysisins þoldi ekki lengur mátið. Sovétstjórnin tók þá áhættu, að þessi aðgerð mundi leiða til þess,að hún gæti síður dregið stjórnir Vesturlanda á asnaeyrunum í friðarviðræðunum í Vín og Genf. En Solzhenitsyn var talinn svo hættulegur, að nokkru yrði að fórna til að hefta frelsi hans.

Í nýjustu bók sinni rekur Solzhenitsyn ótal dæmi um kerfisbundna mannvonzku og grimmd sovézka kommúnismans. Hann segir þessi dæmi sýna, að sovézki kommúnisminn hafi á hálfrar aldar skeiði sínu verið margfalt grimmari og verri en keisarastjórnin gamla og ennfremur verri en nazisminn. Hann bendir líka á, að ekki sé hægt að skýra þetta með Stalínisma, heldur sé þetta sjálfvirk afleiðing kerfisins.

Í augum harðstjóranna er auðvitað stórglæpur að segja þennan sannleika. Þess vegna hafa menn frekar furðað sig á, hve lengi Solzhenitsyn hefur fengið að ganga laus. Við höfum ótal dæmi þess, að minni spámönnum sannleikans hefur verið stungið í vinnubúðir í Síberíu eða á geðveikrahæli, þar sem þeir hafa sætt misþyrmingum.

Skýringin er aðallega sú, að harðstjórarnir voru hræddir við Solzhenitsyn. Þeir vita ekki, hvernig þeir eiga að taka á óttalausum manni, sem stendur eins og klettur úr hafinu, þrátt fyrir allar ógnanir alræðisins. Solzhenitsyn er hertur í þjáningum fangabúðavistar og er reiðubúinn til að mæta örlögum sínum. Jafnframt er hann ákaflega mannlegur og kann vel að blanda réttlætiskennd sína skopskyni og sjálfsháði. Harðstjórar félagshyggjunnar átta sig ekki á, hvernig eigi að taka á svona sjálfstæðum einstaklingi.

Friðarviðræðurnar í Vín og Genf hafa líka haldið aftur af Sovétstjórninni. Í þessum við. ræðum hefur stjórnin sett á svið stórfenglegt sjónarspil til að telja Vesturlandabúum trú um, að varanlegur friður sé á næsta leiti í Evrópu.

Frumkvæði Sovétstjórnarinnar á þessu sviði bar nokkurn árangur í fyrstu og hún vildi ekki spilla honum með ofsóknum gegn Solzhenitsyn. Nú eru friðarfundirnir hins vegar svo vel á veg komnir, að ráðamenn á Vesturlöndum, utan ríkisstjórn Íslands, svo og allur almenningur í þessum löndum hafa áttað sig á skrípaleiknum

Sovétstjórnin neitar að ræða mannréttindi, skoðanafrelsi og ferðafrelsi. Jafnframt gerir hún í hermálum tillögur, sem fela í sér algera og varanlega hernaðarlega yfirburði Sovétríkjanna í Evrópu. Og samhliða stendur hún fyrir mesta herútboði í Evrópu síðan í heimsstyrjöldinni og vígbýst af meira kappi en nokkru sinni fyrr.

Líklega hefur Sovétstjórnin núna áttað sig á, að Vesturlandabúar væru loksins farnir að sjá gegnum friðarblekkinguna og mundu ekki láta leika á sig í Vín og Genf. Þar með þarf hún ekki lengur að halda aftur af sér gagnvart Solzhenitsyn. Þess vegna hefur hún aftur sýnt andlit ógnarstjórnarinnar.

Þess vegna komu þeir og tóku hann í gær.

Jónas Kristjánsson

Vísir