Hin langþráðu slit á stjórnmálasambandi við Breta marka ein af mörgum tímamótum í deilunni um útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur. Á slíkum tímamótum er skynsamlegt að staldra örlítið við.
Sumir eru svartsýnir og segja eins og Morgunblaðíð um daginn, að slit á stjórnmálasambandi séu ekki skynsamleg. Nú hafi Bretar frjálsari hendur en ella við að moka upp fiski, jafnvel á friðuðum svæðum. Þeir veiði í óleyfi meira magn en þeir mundu fá með samningum, þótt við létum undan nýjustu kröfum þeirra um 85 þúsund tonn af þorski og 15 þúsund tonn af öðrum tegundum.
En það er bara í bráð, sem staðan er erfið. Hún er hins vegar mjóg góð, þegar litið er til langs tíma. Ýmsar ástæður valda því, að við þurfum ekki að fara á taugum, þótt Bretar skarki sem ákafast á miðunum, og að við megum alls ekki láta slíkt knýja okkur að samningaborðinu.
Í hverri viku berast nýjar fréttir utan úr heimi af sigurgðngu 200 mílna stefnunnar. Báðar deildir Bandaríkjaþings hafa samþykkt að taka upp 200 mílna efnahagslögsögu. Mexikó er að hefjast handa við að verja sína 200 mílna fiskveiðilögsögu. Efnahagsbandalagið hefur tekið upp 200 mílna stefnu.
Þá hefur dvöl brezkra blaðamanna um borð í íslenzkum varðskipum opnað augu fjölmargra brezka kjósenda fyrir því, að eitthvað meira en lítið sé bogið við stefnu brezku stjórnarinnar í Þorskastríðinu. Þar í landi eru menn smám saman að átta sig á, að stjórnin er að gæta ákaflega sérhæfðra hagsmuna í stað þess að gæta hinna almennu hagsmuna að taka upp brezka 200 mílna fiskveiðilögsögu.
Harka Breta í þorskastrfðinu er af ýmsum slíkum ástæðum að rýrna, bæði innan frá og utan frá. Við skulum því halda ró okkar og ekkert vera að flýta okkur að samninfgaborðinu, þótt Bretar hamist við að veiða.
Við skulum heldur ekki láta það á okkur fá, þótt milliganga Luns, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, hafi mistekizt. Við megum aldrei treysta of mikið á slík bandalög. Í fyrsta lagi eru Bretar bandalaginu mikilvægari en við. Og í öðru lagi er bandalagið ekki sjálfstæður framkvæmdaaðili. En slitin á stjórnmálatengslunum hafa þó knúið marga ráðamenn í ríkjum Atlantshafsbandalagsins til umhugsunar um það, hversu alvarlegt ástandið á Íslandsmiðum er orðið.
Hitt er svo annað mál, að Luns sýndi nokkra fákænsku, þegar hann lét hafa sig út í að flytja Íslendingum skilaboð Breta um meiri heimildir en Wilson talaði við um Geir forsætisráðherra í London. Luns hefði átt að neita að koma nálægt slíkum ruddaskap.
Ef Bretar halda áfram ofbeldisaðgerðum á Íslandsmiðum, kemur senn til greina að neita að sitja fundi með þeim í nefndum og ráðum hins sameiginlega varnarbandalags, Atlantshafsbandalagsins. En úr því fer að þrengjast um möguleika á frekari aðgerðum á því sviði.
Við skulum umfram allt ekki láta koma okkur úr jafnvægi né hrapa að samningum við Breta. Ef þeir ná ekki að taka okkur á taugum, þá tapa þeir á tíma, ekki aðeins 85 þúsund, 65 þúsund og 45 þúsund tonnum, heldur hverju einasta þorsktonni á Íslandsmiðum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið