Þeir segjast samt mestir

Greinar

Óáþreifanlegar fullyrðingar eru gamalt auglýsingabragð, sem menn beita, þegar þeim finnst þeir verða að gefa til kynna, að gengi þeirra sé mun skárra en það er í raun og veru. Þessar fullyrðingar eru gjarnan utan þess ramma, sem unnt er að kanna með vísindalegum aðferðum, og verða því hvorki hraktar né sannaðar.

Tilhneigingar í þessa átt hefur gætt í sölu- og auglýsingaáróðri nokkurra íslenzkra dagblaða að undanförnu. Skýringin er sú, að upplagseftirlit Verzlunarráðs Íslands fer senn að leysa af hólmi órökstuddar fullyrðingar um upplag dagblaða.

Flest dagblöðin hafa ritað undir samning við Verzlunarráð um framkvæmd þessa eftirlits, sem á að spanna yfir fjölda prentaðra eintaka, söluhæfra eintaka, dreifðra eintaka og greiddra eintaka. Þau blöð, sem ekki taka þátt í þessu eftirliti, munu með því dæma sig sjálf.

Með þessu verður fokið í flest skjól hjá þeim, sem vilja sýnast meiri en þeir eru. Eitt eiga þeir þó eftir. Þeir geta haldið því fram, að sitt dagblað sé á einhvern dularfullan hátt meira lesið en þau dagblöð, sem meira eru keypt.

Könnun Verzlunarráðs nær til að byrja með ekki til lestrar dagblaða, enda er hann miklu síður áþreifanlegur en tölur um upplag og sölu. Tölur ráðsins geta því hvorki hrakið né sannað fullyrðingar um þrautlestur lítið keyptra dagblaða.

Æskilegt væri þó, að ráðið færi síðar út í slíkar athuganir, þegar upplagseftirlitið er orðið traust í sessi. Þá mætti líka heita, að fokið væri í öll skjöl þeirra, sem vilja sýnast meiri en þeir eru.

Þrjú minnstu dagblöðin, Alþýðublaðið, Þjóðviljinn og Vísir, sjá fyrir, að eftirlit Verzlunarráðs verði þeim í óhag og beina því áróðri sínum inn á óáþreifanlegar brautir.

Fyrst reið Alþýðublaðið á vaðið með kjörorðinu: “Alþýðublaðið á uppleið”, sem um nokkurt skeið hefur staðið efst á forsíðu blaðsins. Ekki er vitað, á hvaða sviði það er, sem Alþýðublaðið þykist vera á uppleið. Að minnsta kosti er það ekki í sölunni, því að hún hefur ekki aukizt um eitt eintak, síðan þessi áróður hófst.

Þjóðviljinn hefur farið undan upplagseftirlitinu í flæmingi. Talsmenn hans halda því fram, að blaðið sé svo merkilegt, að menn gleypi það meira í sig en önnur blöð, og þess vegna séu sölutölur marklausar. Á þessum rökum er reiknað með, að Þjóðviljinn neiti aðild að upplagseftirlitinu.

Um daginn fór Vísir inn á braut Þjóðviljans með kjörorðinu “:Mest LESNA síðdegisblað landsins”, sem stendur efst á forsíðu blaðsins. Þessi fullyrðing hefur þann kost, að hana er hvorki unnt að hrekja né sanna, þótt tölur um upplag og sölu frá Verzlunarráði muni gefa vísbendingu um allt annað.

Hitt er svo spurningin, hvort ekki þurfi jafnan að skilja eftir Heiðnaberg í Drangey, svo að minnst keyptu dagblöðin hafi eitthvað svið eftir, þar sem þau geta slegið um sig í skjóli skorts á tölulegum upplýsingum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið