Þeir segi ekki af sér

Greinar

Siðblindir ráðherrar í slæmum félagsskap við kraftaverkamenn fjármála og bankamála eru engan veginn æskilegir þjóðarleiðtogar. En þeir eru ekki annað en börn þeirra venja, sem mótazt hafa á löngum tíma í verðbólguleikjum hins samtryggða flokkakerfis hér á landi. Þeir eru varla verri en þeir, sem við mundu taka.

Athuganir fjölmiðla á íslenzkri spillingu munu sennilega leiða til öflugrar siðvæðingar á þeim sviðum, sem til umræðu hafa verið. En þetta verður hægfara þróun, sem kemur með nýjum mönnum úr nýju andrúmslofti. Gömlu hundunum verður ekki kennt að sitja, fremur en fyrri daginn.

Kröfur um afsagnir ráðherra eru vanhugsaðar á þessu stigi málsins. Í fyrsta lagi verður unnt að benda á, að sumar þeirra eigi rætur að rekja til áhugamanna í Sjálfstæðisflokknum um samstarf við AIþýðuflokkinn. Og í öðru lagi eru framsóknarmenn ekki móttækilegir fyrir hugmyndum um siðferðisbresti leiðtoga sinna.

Hvorki Tíminn né hreintrúaðir framsóknarmenn sjá hinn minnsta blett á heiðri sinna manna. Ákaft er skorað á framsóknarmenn að fylkja sér um hina ofsóttu leiðtoga, svo sem þeir hafi gert í Kollumálinu og Kleppsmálinu á sínum tíma. Og Tíminn endurtekur án gamans þá kenningu, að útlendir leyniþjónustumenn borgi mönnum fyrir að ofsækja Framsóknarflokkinn.

Tíminn og ráðamenn Framsóknarflokksins meta stöðuna greinilega þannig, að flokkssauð- irnir muni ekki bila, ef nægilegu stjórnmálamoldviðri sé þyrlað upp. Muni þá hinir gagnrýndu leiðtogar rísa úr öskunni sem forkláraðir píslarvottar í augum framsóknarmanna.

Út af fyrir sig væri hægur vandi fyrir Tímann að grafa upp nokkra ungliða í flokknum og láta þá krefjast afsagnar Matthíasar Bjarnasonar vegna ýmissa ábyrgðarlausra ummæla, Gunnars Thoroddsen vegna Kröflu, Matthíasar Mathiesen vegna fjármálaóstjórnar og Geirs Hallgrímssonar vegna óstjórnar efnahagsmála.

Þessi upptalning sýnir, hversu marklaust er að krefjast afsagnar ráðherra vegna meintra bresta á viti og góðum siðum. Í flokkspólitísku andrúmslofti Íslands taka menn slíkum tillögum jafnan flokkspólitískt en ekki efnislega.

Það er ekki venja hér á landi, að ráðherrar segi af sér vegna vel rökstuddra en ekki fullsannaðra grunsemda um siðblindu og slæman félagsskap, fremur en hliðstæðra grunsemda um þekkingar- og greindarskort. Ráðherrar koma og fara í kjölfar sveiflna á vogarstöng kosninga, en ekki í kjölfar sveiflna á öðrum mælikvörðum almenningsálitsins.

Áhugamenn um bætta siði í stjórnmálum, dómsmálum, fjármálum og bankamálum ættu ekki að eyða tíma og púðri í kröfur um afsagnir ráðherra. Miklu nær er að leggja áherzlu á að grafa upp staðreyndir í spillingarmálunum og kynna þær almenningi.

Ef umræðan um spillinguna koðnar ekki niður í pólitísku moldviðri, mun hún smám saman og sjálfkrafa leiða til þess, að betri menn komist til áhrifa í landinu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið