Þeir ljúga eftir megni

Greinar

Frásögn leiðarahöfundar Dagblaðsins af hinum nýju, frönsku heimspekingum, sem hafna marxismanum, hefur af eðlilegum ástæðum kallað fram andsvör af hálfu Þjóðviljans. Í andsvörunum var rétt farið með sjónarmiðin, sem gagnrýnd voru. Slíkt er óvenjulegt í stjórnmálaumræðu dagblaðanna.

Skýringin er sennilega sú, að fréttastjóri Þjóðviljans, Einar Karl Haraldsson, varð til svara, en ekki einn þeirra, sem annast stjórnmálaskrif blaðsins. Eru þar enn á ferðinni hin gömlu sannindi, að skynsamlegt er að trúa fremur þeim, sem skrifa fréttir og sjá um þær, en þeim, sem skrifa skoðanir og sjá um þær.

Þetta má betur skýra með því að vitna í viðbrögð Þjóðviljans við óvinsælum skoðunum leiðarahöfundar Dagblaðsins á nauðsyn þess, að reynt sé að rækta snilligáfu í skólum landsins. Þau viðbrögð voru kunnugleg.

Fyrstur á vettvang varð Árni Bergmann, sem stendur beggja megin við línuna milli frétta og skoðana. Í frásögninni ýkti hann nokkuð sjónarmið leiðarahöfundar Dagblaðsins, en þó ekki meira en svo, að fyrirgefanlegt er í hita leiksins.

Síðan kom Svavar Gestsson ritstjóri á vettvang og lýsti skoðunum leiðarahöfundar Dagblaðsins á þann hátt, að þær voru orðnar óþekkjanlegar. Þetta var hin gamalgróna aðferð íslenzkra leiðarahöfunda. Sjónarmið andstæðingsins eru úr lagi færð, áður en þau eru tekin til umræðu.

Um þetta má rekja ótal dæmi. Upp á síðkastið hafa Þjóðviljinn og Tíminn túlkað sjónarmið úr prófkjörsbaráttu Alþýðuflokksmanna á þann hátt, að þar í flokki væri allt á öðrum endanum í margvíslegum klofningi.

Auðvitað fylgir prófkjörum kosningabarátta. Það er víðar en í biblíunni, sem margir eru kallaðir, en fáir útvaldir. Engin ástæða er til að ætla annað en, að allt falli í ljúfa löð eftir prófkjör og að áfram muni starfa fyrir flokkinn þeir, sem bíða lægri hlut í prófkjörum.

Athyglisverðasta dæmi síðustu daga um falsanir skoðanastjóra dagblaða eru fullyrðingar Tímans um samdrátt Alþýðubandalagsins og Sjálfstæðisflokksins. Þær byggjast á óvenjugrófum útúrsnúningi á ummælum forustumanna og málgagna þessara flokka.

Þórarinn Þórarinsson hefur löngum manna mest beitt þessum lágkúrulegu vinnubrögðum. Virðist hann nú hafa fengið aðstoðarmann við hæfi, þar sem er Jón Sigurðsson, er skrifar skítkastsgreinar Tímans.

Broslegt er að hugsa til þess, að einmitt þessi skrifuðu orð munu verða Jóni og Þórarni tilefni og sönnunargagn nýrrar hrinu um ofsóknir íhalds og komma gegn framsókn.

Morgunblaðið er ófeimið við þessa hluti. Sérgrein blaðsins er að endurtaka lygina nógu oft í trausti þess, að hún verði um síðir að viðurkenndum sannleika.

Eitt nýjasta dæmið eru frásagnir Morgunblaðsins af sprengingum, sem íslenzkir jarðvísindamenn hafa framkvæmt í samvinnu við Rússa og vestrænar þjóðir. Af skrifum blaðsins mætti ætla, að Rússar einir væru að sprengja. Það er skiljanlegt, að sannleikur eigi hér erfitt uppdráttar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið