Egg og ölgerðarefni eiga það sameiginlegt að vera nýjustu fórnardýr tilrauna í ríkisstjórninni til að láta ríkisverzlun taka við af frjálsri verzlun. Í báðum tilvikum eru ráðherrar Framsóknarflokksins að verki, enda hefur sá flokkur jafnan verið veikur fyrir öflugu miðstjórnarvaldi.
Hingað til hafa egg verið seld á frjálsum markaði. Margir framleiðendur hafa selt utan sölusamlaga og sumir hinna stærstu meira að segja í eigin umbúðum. Verðþróun eggja hefur verið neytendum hagstæð og möguleikar á góðum kaupum eru miklir.
Mörgum neytendum finnst hagræði að því að fá eggin beint heim, án viðkomu í verzlun, auk þess sem þau eru þá oft ferskari en ella. Öðrum finnst hagkvæmt að fylgjast með, hvar eggin eru ódýrust hverju sinni, og geta í kjölfarið gert betri kaup en ella.
Hið frjálsa sölukerfi hefur verið neytendum og framtakssömum framleiðendum til gagns. En Steingrímur Hermannsson landbúnaðarráðherra hefur ekki áhuga á hagsmunum þessara stétta. Hann vill, að Framleiðsluráð landbúnaðarins stjórni eggjasölu og megi koma á fót einkasölu Sambands eggjaframleiðenda.
Steingrímur er að reyna að fá ríkisstjórnina til að fallast á ítarlegt frumvarp um stóraukna miðstýringu sölu landbúnaðarafurða og stóraukna samfléttun ríkis og hagsmunastofnana bænda. Samkvæmt frumvarpinu eiga alveg að hverfa hin litlu ítök, sem neytendur hafa í verðlagningu landbúnaðarafurða.
Flokksbróðir Steingríms og sálufélagi í ríkisdýrkuninni, Tómas Árnason fjármálaráðherra, hefur fengið ríkisstjórnina til að leggja fram frumvarp um, að Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins fái einkaleyfi á innflutningi tilbúinna bruggunarefna, þar á meðal lifandi gerla.
Markmiðin eru sögð vera annars vegar að draga úr drykkjuskap og hins vegar að bæta ríkinu tekjutap Áfengisverzlunarinnar á undanförnum átta másuðum. Hið síðara er hin raunverulega ástæða og er eins konar hefnd í garð neytenda fyrir að hafa ekki látið bjóða sér síðustu okurhækkun á áfengi.
Enda er líka ánægjulegt að lesa í greinargerð frumvarpsins, að áfengistekjur ríkisins hafi í fyrra orðið 1,5 milljörðum minni en átt hefði að vera og verði á þessu ári 3 milljörðum minni en þær eigi að vera. Svoleiðis eiga neytendur einmitt að svara okurkaupmönnum.
Ekki verður séð, að drykkjuskapur minnki í landinu, þótt ríkið taki að sér sölu bruggunarefna. Hins vegar má búast við, að framboðið versni, ef Áfengisverzlunin hagar sér eins fábjánalega í innkaupum bruggunarefna og hún hagar sér nú í innkaupum léttra vína. Sum þeirra eru beinlínis hættuleg heilsu manna.
Tekjutapinu gat ríkið svo mætt á auðveldan hátt með því að hækka innflutningsgjöld á bruggunarefnum til samræmis við innflutningsgjöld léttra vína. Til slíks þurfti ekki ríkiseinkasölu. Leiðin, sem ríkisstjórnin valdi, sýnir bara ríkisdýrkun hennar og Tómasar Árnasonar sérstaklega.
Framsóknarflokkurinn hefur aldrei skilið neytendasjónarmið frjálsrar verzlunar. Steingrímur Hermannsson og Tómas Árnason eru að feta í fótspor Eysteins Jónssonar. Spurningin er bara sú, hvort neytendur áttunda áratugar aldarinnar láta ríkisdýrkendur komast upp með þetta.
Hin spurningin er svo, í hvaða vörutegundum arftakar Eysteins Jónssonar ætla næst að níðast á neytendum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið