Þeir féllu á Breiðholti

Greinar

Ósigur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er tvímælalaust markverðasti og afdrifaríkasti atburður sveitarstjórnarkosninganna. Sá meirihluti, sem í hálfa öld hafði staðizt hin hörðustu áhlaup annarra flokka, er nú fallinn og kemur kannski aldrei aftur.

Úrslitin hljóta að valda jarðhræringum í Sjálfstæðisflokknum. Meirihlutinn í Reykjavik var fyrir löngu orðinn einn helzti hornsteinn flokksins, þar á meðal eins konar uppeldisstöð fyrir verðandi forustumenn hans. Nú er þar tómarúm, sem hornsteinninn var áður.

Á útlegðarárum í landsmálunum, þegar vinstri stjórnir voru við völd, sleiktu sjálfstæðismenn sár sín í vígi meirihlutans í Reykjavík. Þar bjuggu þeir sig undir nýja valdatöku í landamálunum, yfirleitt með góðum árangri.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur stundum farið á mis við konungdæmi landsmálanna. En hertogadæminu í Reykjavík hefur hann hingað til haldið. Þessi sífellda nálægð við völd, meira að segja á tímum vinstri stjórna, hefur mótað flokkinn og gert hann að flokki hinna sífelldu valda.

Orsaka ósigursins má sumpart leita í óvinsældum ríkisstjórnarinnar. Margir fyrrverandi sjálfstæðismenn kusu flokkinn ekki í Reykjavík af hreinni andstöðu við ríkisstjórnina. Hinir eru þó fleiri, sem studdu flokkinn í Reykjavík, en hugsa sér til hreyfings í alþingiskosningunum.

Hinu þýðir ekki heldur að leyna, að mistök í stjórn borgarinnar sjálfrar hljóta að hafa ráðið úrslitum. Þar ber hæst skipulag hverfanna í Breiðholti. Reynslan, sem smám saman er að koma í ljós, virðist benda til, að þessi hverfi hafi verið misheppnuð þegar á teikniborðinu.

Meirihlutinn tapaði líka sumu af frumkvæði sínu í garð minnihlutaflokkanna. Hinir síðarnefndu gerðu harða hríð að meirihlutanum fyrir skort á skilningi og áhuga á atvinnumálum höfuðborgarinnar. Sú gagnrýni virðist hafa komizt til skila hjá mörgum kjósendum.

Breiðholtið hlýtur að vera eitt sér efst á lista orsakanna. Þar búa einmitt hinir dæmigerðu kjósendur Sjálfstæðisflokksins, ungt fólk á uppleið. Þetta er fólk, sem hefur lagt nótt við dag til að koma sér upp íbúð og búa í haginn fyrir framtíðina.

Svo sér það allt í einu, að borgin hefur búið því allt annað umhverfi en það átti von á. Þarna hefur verið reist síðasta svefnborg Vesturlanda, löngu eftir að útlendingar voru búnir að reka sig á ömurleika slíkra borga. Unga fólkinu á uppleið finnst það hafa verið svikið.

Áður var meirihlutinn búinn að snúa baki við tryggustu kjósendum sínum, hinu vel stæða fólki, sem nú býr í einbýlishúsum svefnþorpanna á Reykjavíkursvæðinu. Í þessum þorpum eru nú helztu vígi Sjálfstæðisflokksins. En Reykjavík gat ekki boðið upp á lóðir handa þessu fólki.

Of snemmt er að spá um myndun nýs meirihluta í Reykjavík. Annaðhvort koma vinstri flokkarnir sér saman um nýjan borgarstjóra og málefnasamning eða þá að sjálfstæðisflokkurinn víkkar meirihlutann með því að taka einn flokk með sér í stjórn.

Líklega bíða forustumenn flokkanna eftir úrslitum alþingiskosninganna, áður en þeir brjóta neinar brýr að baki sér í myndun nýs meirihluta í Reykjavík.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið