Þeir eru úti að aka

Greinar

Fæðingarhríðir fjárlagafrumvarpsins benda til, að ríkisstjórnin geti einfaldlega ekki stjórnað landinu. Misskilningur og mistúlkanir einkenna samstarfið innan stjórnar og út í þingflokka. Þar á ofan virðist hrein óskhyggja ráða sjálfum niðurstöðutölum frumvarpsins í núverandi mynd þess.

Dagblaðið skýrði frá því á miðvikudaginn, að Tómas Árnason fjármálaráðherra teldi sig hafa í aðalatriðum náð samkomulagi í ríkisstjórninni um frumvarpið, þó með nokkrum fyrirvara um einstök atriði. Jafnframt var upplýst, að fjármálaráðuneytið væri um það bil tilbúið að senda frumvarpið til prentunar.

Þingmenn stjórnarflokkanna urðu forviða við þessar fréttir, sem síðan hafa verið staðfestar. Þeir könnuðust ekki við nein samráð við þingflokka ríkisstjórnarinnar um efni fjárlagafrumvarpsins. “Ég trúi því ekki”, sagði Sighvatur Björgvinsson þingmaður í viðtali við Dagblaðið á fimmtudaginn um meint samþykki ríkisstjórnarinnar við frumvarpið.

Hinn sama dag gengu svo þingmennirnir Sighvatur Björgvinsson, Lúðvík Jósepsson, Geir Gunnarsson og Karl Steinar Guðnason á fund ráðherranna Ólafs Jóhannessonar, Ragnars Arnalds og Magnúsar H. Magnússonar. Mótmæltu þingmennirnir vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar við gerð fjárlagafrumvarpsins.

Ragnar Arnalds varpaði síðan boltanum áfram á forsíðu Þjóðviljans á föstudaginn. “Fjárlagafrumvarpið hefur alls ekki verið samþykkt í ríkisstjórninni”, sagði hann. Ennfremur: “Að fjármálaráðherra leggi fram sitt eigið frumvarp tel ég alveg ófært, enda hefur það aldrei þekkzt.”

Annað hvort hefur fjármálaráðherra blekkt samráðherra sína eða þeir blekkt flokksbræður sína á þingi, nema hvort tveggja sé. Munnlegar upplýsingar milli manna í stjórnarliðinu virðast aflagast mjög í meðförum þeirra, viljandi eða óviljandi. Það er eins og enginn tali þar sama tungumálið.

Kannski hefði fjármálaráðherra lagt fram einkafrumvarp til fjárlaga, ef Dagblaðið hefði ekki upplýst stöðu málsins. Þá hefði hvellurinn um síðir orðið enn meiri og stjórnin sennilega klofnað. Ef til vill draga ráðherrarnir þann lærdóm af þessu að tala meira og fyrr við Dagblaðið, svo að þeir geti séð gerðir hver annars á sameiginlegu tungumáli.

Uppistandið hefur þegar leitt til þess gagns, að stjórnarflokkarnir hafa skipað nokkra þingmenn í nefnd til að endurskoða frumvarpið, einkum meginatriði þess og grundvallarforsendur. Ekki veitir af, eftir þeim fréttum að dæma, sem borizt hafa um efni frumvarpsins.

Í núverandi mynd eru niðurstöðutölur þess 60-65% hærri en síðasta fjárlagafrumvarps. Þetta er langt umfram verðbólgu. Svo virðist sem höfundar geri sér enga grein fyrir, að ríkið getur ekki hlaupið langt fram úr verðbólgunni um leið og það bannar öðrum að fylgja verðbólgunni. Það er eins og þeir geri sér enga grein fyrir, að ríkið verður nú að stanza, eftir að hafa staðið fyrir verðbólgunni í heil átta ár.

Samfara þessu mun frumvarpið gera ráð fyrir enn frekari hækkun tekjuskatta, einkum á launafólki, er hefur tekjur, sem mælanlegar eru á skattskýrslum. Þetta sýnir ljóslega, að höfundarnir búa í einhverjum einkaheimi, sem hvergi snertir efnahagslegar né stjórnmálalegar staðreyndir.

Skyldu ekki einhverjir stjórnarliðar svitna af skelfingu út af gangi þessara mála?

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið