Þeir eru komnir aftur.

Greinar

Mörgum landsmanni brá í brún á mánudags- og þriðjudagskvöldið. Menn höfðu þá haft nokkurn veginn sumarlangan frið fyrir alþingismönnum þjóðarinnar. En nú heyrðu menn þá hnakkrífast í útvarpi og sjónvarpi um fjárlagafrumvarpið og fiskveiðilögsöguna.

Útfærsla lögsögunnar í 200 mílur er ef til vill eina málið, sem nokkurn veginn alger samstaða er um með þjóðinni. En auðvitað þurftu þingmennirnir að finna sér ótal ágreiningsefni í því máli eins og öðrum og virtist það ástæðulítill ágreiningur, einkum í smáatriðum. Það var því von, að menn spyrðu: Eru þeir þá komnir aftur, blessaðir kjóarnir!

Fjárlagafrumvarpið er að mörgu leyti skárra en slík frumvörp hafa verið á undanförnum árum, þótt það sé enn ekki í fullu samræmi við greiðslugetu þjóðarinnar. Því miður benda fyrstu ummæli þingmanna ekki til þess, að þeir hafi áhuga á að laga frumvarpið betur að greiðslugetunni.

Fremur virðist svo sem þeir hafi áhuga á að eyðileggja það litla, sem er gott í því. Samkvæmt venju eru þingmenn farnir að kveina hástöfum yfir því, að frumvarpið geri ekki ráð fyrir brú hér og skóla þar, flugvöll hér og spítala þar. Þá varðar lítt um þjóðarhag, en þeim mun meira um hagsmuni þrýstihópanna, sem eiga hvert bein í mörgum þeirra.

Nú er að hefjast mikið kapphlaup þingmanna um að troða inn á fjárlög margvíslegum áhugamálum þrýstihópa til viðbótar við það, sem er í frumvarpinu og yfirgnæfir þegar greiðslugetu skattgreiðenda. Þar á ofan er ljóst nú þegar, að margir þeirra stefna að því að fá dregið úr þeim niðurskurði sem ríkisstjórnin hafði kjark til að gera ráð fyrir í frumvarpinu.

Bráðlega hefjast ramakveinin um, að landbúnaðurinn og niðurgreiðslur landbúnaðarafurða hafi verið skorið niður í 7.000.000.000 krónur eða sjö milljarða í fjárlagafrumvarpinu, og eru það þó rúmlega tólf prósent af ríkis-útgjöldunum.

Ætti þó öllum að geta verið ljóst, að þessi upphæð er, þrátt fyrir niðurskurðinn, mjög þungbær byrði á þeim, sem verðmætin skapa í þjóðfélaginu. Hún rýrir hvort tveggja í senn, afkomu atvinnuveganna og lífskjör starfsmanna þeirra.

Fjárlagafrumvarpið er of hátt eins og það kemur frá ríkisstjórninni. Það gerir ráð fyrir óbreyttu hlutfalli ríkisútgjalda af þjóðartekjum frá því í ár og í fyrra. Og reynslan hefur einmitt sýnt, að þetta hlutfall er allt of hátt. Þetta háa hlutfall ríkisbáknsins er veigamesta ástæða verðbólgunnar og dapurlegrar afkomu atvinnuvega og launþega.

Ef alþingismenn ætluðu að standa sig í starfi og vinna í þágu umbjóðenda sinna, mundu þeir skera niður fjárlagafrumvarpið og neita að hlusta á raddir þrýstihópanna, sem sækja að þeim úr öllum áttum. þá væru þeir ábyrgir þingmenn, en ekki þrælar þrýstihópa. Þeir eru kjörnir af þjóðinni til að halda þjóðarskútunni á floti en sökkva henni ekki.

Ef þingmenn sýndu slíkan manndóm, mundu landsmenn ef til vill hætta að fá fyrir hjartað á hverju hausti, þegar þingmennirnir koma úr fríi og hefja hinar broslegu burtreiðar sínar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið