Ríkisstjórn og lánastofnanir, aðrar er lífeyrissjóðir, eru í þann veginn að drepa hugsjónina um verðtryggingu fjárskuldbindinga. Enda var þessi hugsjón mjög andstæð hagsmunum peningagæðinga þessara stofnana.
Enn hefur ekki verið ákveðið, hvernig verðbætur verði skattlagðar. Þess vegna hafa fáir einkaaðilar þorað að fara út í verðtryggingu, til dæmis í fasteignaviðskiptum. Þessi óvissa lamar þróun í átt til heilbrigðari fjármála.
Bankarnir vaða á undan með vondu fordæmi og leggja mesta áherzlu á vaxtaaukalán. Einkenni þeirra eru háir vextir, en ekki hækkun höfuðstóls. Þau eru því ekki í samræmi við anda Ólafslaga.
Gera verður greinarmun á háum vöxtum annars vegar og hækkun höfuðstóls hins vegar. Í fyrra tilvikinu má segja, að skuldarinn greiði verðbólguna strax, en fái hana jafnaða út í síðara tilvikinu.
Það er verulegur munur á því að greiða hverju sinni ársvexti af heilu láni eða greiða aðeins heildarvexti af hinni árlegu afborgun. Í síðara tilvikinu eru greiðslur samræmdar greiðslugetu.
Raunvaxtastefnan var alltaf vandræðaleg, meðan hún miðaði við hækkun vaxta. Það lá alltaf í augum uppi, að í 50% verðbólgu mundu margir skuldarar kikna undan vaxtagreiðslum fyrsta árs.
Með Ólafslögum var stefnt að höfuðstólsleiðinni. Þá leið hafa nokkrir lífeyrissjóðir farið og virðist hún ólíkt manneskjulegri. Hún er líka rökréttari, því að markmið verðtryggingar er ekki vaxtaokur, heldur verndun gildis höfuðstólsins.
Ríkisstjórn, Seðlabanki og bankar skirrast enn við að fara úr okurlánum yfir í hækkun höfuðstóls. Þar með fá Lúðvíkar landsins tækifæri til að rægja hugsjón verðtryggingar.
Í broddi Lúðvíkanna, verndara peningagæðinga ríkis og lánastofnana, er Alþýðubandalagið. Ráðherrar þess hafa að undanförnu barizt með nokkrum árangri gegn því, að vextir verði minna neikvæðir en áður.
Þeir geta og hafa bent á, að fyrsta ársgreiðsla af tveggja milljón króna vaxtaaukaláni til fjögurra ára nemi 1,2 milljón króna. Þannig geta þeir grafið undan trú almennings á notagildi verðtryggingar.
Það er bara skrípaleikur, þegar Seðlabankinn skiptir vöxtum í eiginlega vexti og verðbótaþátt. Menn verða nefnilega að greiða verðbótaþáttinn eins og hverja aðra vexti.
Þjóðarsamstaða verður að nást um verndun sparifjár, eftirlauna og verðtryggingu fjárskuldbindinga. Án þess verður fjármálakerfið ekki heilbrigt.
Baráttan fyrir verðtryggingu er raunar enn mikilvægari en baráttan gegn verðbólgu. Svindlið, sem fylgir verðbólgunni og veldur andstöðu okkar við hana, mundi einmitt hverfa við verðtryggingu.
Henni má koma á með nokkrum pennastrikum, meðan baráttan gegn verðbólgu er mjög flókin og erfið. Og með verðtryggingu má afnema mesta böl verðbólgunnar í einu vetfangi.
Þjóðarsamstaða næst ekki um þetta nauðsynjamál fyrr en valdakerfið breytir úr okurvöxtum vaxtaaukalána yfir í höfuðstólskerfi lífeyrissjóða. Og það má gera með því að reikna mánaðarlega út vísitölu allra, allra fjárskuldbindinga.
Því miður bendir flest til þess, að hvorki ríkisstjórnin, Seðlabanki né stofnanir þær, sem nú úthluta kjörum til gæðinga, svonefndir bankar, hafi raunverulegan áhuga á að framkvæma hugsjónina um verðtryggingu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið