Þeir búa til grýlur

Greinar

Lítilsgildar blaðaumræður hafa risið út af fróðlegri grein, sem Þröstur Ólafsson hagfræðingur skrifaði nýlega í Tímarit Máls og menningar. Í greininni voru meðal annars vangaveltur um stjórnmálaflokkana, ýmiss konar samstarf þeirra í fortíðinni og hugsanlegt samstarf í framtíðinni.

Þröstur staldraði nokkuð við Alþýðubandalagið og Sjálfstæðisflokkinn. Velti hann fyrir sér, hvernig stjórnarsamstarf mundi verða í raun hjá þessum flokkum, með nokkurri hliðsjón af fyrra samstarfi Sósíalistaflokksins og Sjálfstæðisflokksins í nýsköpunarstjórninni.

Erfitt er að finna í greininni eiginlega niðurstöðu hugleiðinganna, nema ef vera skyldi þá, að samstarf þessara flokka væri hugsanlegt eins og samstarf milli flokka er yfirleitt. Í greininni fólst ekki tillaga um slíkt samstarf eftir alþingiskosningarnar í júní.

Lúðvík Jósepsson alþingismaður lét flokkserindreka ritstjórnar Tímans taka sig á taugum vegna greinarinnar. Andmælti hann því harðlega, að eftir kosningar stæði til stjórnarsamstarf Alþýðubandalags og Sjálfstæðisflokks. Ennfremur sagði hann Þröst ekki skrifa í nafni Alþýðubandalagsins.

Auðvitað hefur Lúðvík sem gömlum stjórnmálaref sárnað, að flokksbróðir hans skuli skömmu fyrir kosningar taka fyrir umræðuefni, sem leiðtogar stjórnmálaflokkanna telja bannhelgt á tíma kosningaundirbúnings. Hann vill ekki, að flokksbróðir sé opinberlega fyrir kosningar að ræða um samstarfsmöguleika flokksins eftir kosningar.

Hins vegar hafði Lúðvík greinilega ekki kynnt sér efni greinar Þrastar. Hann féll í gryfju Tímans og gaf blaðinu enn frekari tækifæri til að fjalla um uppáhaldsgrýlu þess, yfirvofandi samstarf Alþýðubandalags og Sjálfstæðisflokks.

Grýlu þessa málar Tíminn á vegginn hvað eftir annað. Mynd blaðsins er ætlað að koma því inn hjá lesendum, að sterk öfl í Alþýðubandalaginu stefni að samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Þess vegna verði kjósendur í vinstra armi Framsóknarflokksins að gæta þess að hlaupa ekki út undan sér til Alþýðubandalagsins í kosningunum.

Þar með er Tíminn í rauninni að setja undir leka, sem glöggir áhorfendur telja vera Framsóknarflokknum umtalsvert vandamál. Eina bjargráð blaðsins er að gera hagfræðingi í Alþýðubandalaginu upp skoðanir og búa til skuggalegan áhrifahóp að baki hans. Öll sú grýla er búin til á Tímanum.

Flokkserindrekarnir á Tímanum eru vanir slíkum vinnubrögðum. En þeir eru ekki einir sekir. Svipað hefur tíðkazt á flokkspólitísku blöðunum frá upphafi. Frægasta dæmið er gamall útúrsnúningur Þjóðviljans á tækifærisræðu, er Gylfi Þ. Gíslason alþingismaður hélt. Blaðið fullyrti ranglega, að Gylfi hefði talið heppilegt að fórna sjálfstæði Íslands. Og það tönnlaðist á rangfærslunni árum saman.

Kjósendur verða að læra að vara sig á ýmsum siðlausum vinnubrögðum, sem flokkserindrekarnir á dagblöðunum nota til að blekkja og véla fólk. Barátta þeirra við tilbúnar grýlur er áberandi þáttur slíkra vinnubragða.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið