Við Íslendingar eigum í raun og veru kröfurétt til skaðabóta frá þeim ríkjum, sem hafa á undanförnum áratugum hagnýtt sér Íslandsmið án samþykkis okkar og án þess að greiða okkur auðlindaskatt.
Einar Ágústsson utanríkisráðherra vék réttilega að þessu í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær. Vísaði hann til hafréttarráðstefnunnar, þar sem komið hefur í ljós, að yfirgnæfandi meirihluti ríkja heims er andvígur því hátterni, að stórveldi geti sent togaraflota til að hagnýta sér fiskimið annarra þjóða án þeirra samþykkis.
Síðan sagði Einar: “Í stað þess að berjast gegn hugtakinu um efnahagslögsögu, ættu þessi ríki að láta sér nægja, að þau þurfa ekki að greiða skaðabætur fyrir þau geysilegu auðævi, sem þau hafa tekið ár þessum auðlindum hingað til.”
Spurningin er bara sú, hvort íslenzka ríkisstjórnin eigi ekki að setja þetta atriði sérstaklega á oddinn í viðræðum við ríkisstjórnir erlendra ríkja um undanþágur fyrir togara þeirra innan 200 mílna landhelginnar.
Einar benti á þá samstöðu, sem komið hefur fram á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um, að strandríki geti ákveðið leyfilegan hámarksafla innan 200 mílna fjarlægðar og einnig ákveðið möguleika sína til að hagnýta hann. Þar sem íslenzki fiskiskipaflotinn er nú fullfær um að hagnýta Íslandsmið til fulls, væri það í samræmi við vilja ráðstefnunnar, að Íslendingar önnuðust þessar veiðar einir.
Enn veiða erlendir fiskimenn nærri helming heildarafla botnlægra fiskitegunda á Íslandsmiðum og það með ríkulegum styrk hlutaðeigandi ríkisstjórna. Ókynþroska fiskur er vaxandi hluti þessa afla, enda hefur komið í ljós hjá Alþjóða hafrannsóknaráðinu, að 50% samdráttur veiða á þessum miðum mundi ekki minnka heildaraflann.
Þessar veiðar erlendra togara hafa skaðað Íslandsmið verulega og er því ekki nema eðlilegt, að skaðabætur komi fyrir. Ennfremur er eðlilegt, að hugsanlegar undanþágur fyrir erlenda togara verði framvegis skattlagðar með sérstökum auðlindaskatti.
Viðsemjendur Íslendinga í fiskveiðimálunum eru harðir í horn að taka og beita jafnvel efnahagslegum þvingunum á borð við löndunarbann og frestun tollalækkana. Þess vegna eigum við ekki að afsala okkur neinum rétti til bóta fyrir þann skaða, sem Íslandsmíð hafa orðið fyrir, heldur hefjast handa við að reikna út skaðann og gera viðkomandi ríkisstjórnum reikning fyrir hann.
Sögulegum rétti á að fylgja söguleg ábyrgð. Það gætu því komið vöflur á viðsemjendur okkar, sem bíta sig fasta í sögulegan rétt sinn til veiða á Íslandsmiðum. Þetta vopn eigum við að notfæra okkur í viðræðunum um undanþágur til veiða innan 200 mílnanna.
Einar drap aðeins lauslega á hugsanlega skaðabótaskyldu viðsemjenda okkar í ræðu sinni á allsherjarþinginu. Það var ágæt byrjun. Í beinu framhaldi eigum við nú að fara á fulla ferð í skaðabótakröfum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið