Þeir borgi sinn kostnað.

Greinar

Greinileg merki breyttra viðborfa til fjármála varnarliðsins hafaa verið á lofti undanfarnar vikur. Almenningur hefur fjarlægzt stjórnmálaforingja sína og krefst þess ófeiminn, að varnarliðið verðil látið borga fyrir aðstöðu sína hér á landi.

Þessi eindregna afstaða hefur komið skýrt fram í skoðanakönnun Dagblaðsins. Þar vildu 70% manna, að gjald yrði tekið, en aðeins tæplega 20% voru því andvígir, auk þess sem um 10% voru öráðnir. Svo eindreginn meirihluti sem þessi er sjaldgæfur í skoðanakönnunum.

Stjórnmálamenn hafa ekki tekið undir sjónarmið almennings að fullu. Sumir þeirra hafa stungið upp á millileiðum, en þeir eru mjög fáir, enn sem komið er. Dagblaðið hefur lagzt á sveif með þeim, sem vilja fara millileiðir í þessu viðkvæma og mikilvæga máli.

Við höfum haldið því fram, að varnarliðið og starfsmenn þess eigi framvegis ekki að njóta núgildandi fríðinda. Greiða beri tolla og söluskatt af innlendri og erlendri vöru og þjónustu á Keflavíkurflugvelli eins og annars staðar á landinu. Þá greiði starfsmenn varnarliðsins skatta og útsvör til íslenzkra yfirvalda til jafns við Íslendinga sjálfa, eins og aðrir útlendingar verða að gera, sem starfa hér á landi.

Við höfum haldið því fram, að varnarliðið taki ekkl nægan þátt Í ýmsum kostnaði við eflingu varnarmáttar þess. Það hafi meiri hag af nýrri flugstöð á Keflavíkurflugvelli en fram komi í þátttöku þeirra í kostnaði við hana. Ennfremur þurfi varnarliðið á að halda alþjóðlegum varaflugvelli á Egilsstöðum. Og loks hafi varnarliðið margvíslegan hag af eflingu varanlegrar vegagerðar á löngum vegalengdum hér á landi.

Svipaðar hugmyndir, en þó varfærnari hafa komið opinberlega fram hjá þingmönnunum Gunnari Thoroddsen, ráðherra Sjálfstæðisflokksins, og Benedikt Gröndal, formanní Alþýðuflokksins.

Hugmyndin að baki þessara millileiða er sú, að feta ekki í fótspor Tyrkja, Grikkja og Spánverja, sem taka beint leigugjald fyrir hinar bandarísku herstöðvar í löndum þeirra. Fremur verði tekið mið af Norðmönnum, sem láta Atlantshafsbandalagið verja gífurlegum fjárhæðum til ákveðinna vega, er skipta máli fyrir varnargetu bandalagsins. Þeir mundu heldur aldrei láta sér detta í hug að veita útlendingum þau tolla- og skattfríðindi sem hér tíðkast.

Millileiðirnar byggjast ekki á þeirri skoðun, að varnarliðið sé Íslendingum gagnslaust. En þær byggjast samt á þeirri skoðun, að hagur Bandaríkjanna af varnarliðinu sé margfalt meiri en hagur okkar og að hagur Atlantshafsbandalagsins sé einnig meiri en okkar.

Þeir, sem enn eru fastir í gömlu gjafasjónarmióunum, kalla aðra landsölumenn og aumingja, sem kikni undan erfiðleikum. En það hefur greinilega komið í ljós, að allur þorri almennings kippir sér ekki hið minnsta upp við slíkar uppnefningar,enda bera þær í sér vonleysi rökþrota manna.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið