Þegar peningar skipta engu

Greinar

Fréttir undanfarinna daga af fjárskorti á ýmsum sviðum heilbrigðismála benda til þess, að enginn snertipunktur sé á hugmyndum sérfræðinga annars vegar og á greiðslugetu þjóðarinnar hins vegar. Dæmi um þetta eru fyrirhuguð heilsugæzlustöð í Breiðholti og geðdeildin, sem er í byggingu á lóð Landspítalans.

Hin gríðarlega bygging, sem risin er fyrir geðdeildina, er aðeins helmingur af þeirri steypu, sem deildina á að húsa. Þessi bygging á aðeins að rúma 60 sjúklinga og í endanlegri mynd á geðdeildin aðeins að rúma 120 sjúklinga. Í núverandi ástandi kostar byggingin 260 milljón krónur, en deildin fullbyggð á að vera komin upp í 1.000 milljón krónur á núverandi verðlagi.

Athyglisvert er, að sérfræðingar telja skortinn á ýmsum tegundum sjúkrahúsa fyrir geðveika og drykkjumenn nema um 500 sjúkrarúmum. Samkvæmt þessari skoðun leysir hin gríðarlega bygging, sem risin er á lóð Landspítalans, ekki nema rúmlega einn tíunda hluta vandamálsins. Það er því von, að menn spyrji, hvort tölurnar um sjúkrarúmaþörfina og rúmmálsþörfina á hvert sjúkrarúm séu í rauninni réttar.

Hvað mundi gerast, ef svipaðar tölur yrðu settar fram um sjúkrarúmaþörf og rúmmálsþörf á öðrum sviðum læknavísindanna? Hver ætti að andmæla slíkum tölum?

Nokkrir læknar hafa sett fram hugmyndir um fyrirkomulag heilsugæzlustöðvar í Breiðholti. Þeir gera þar ráð fyrir víðtækri starfsemi lækna, hjúkrunarfræðinga, tannlækna, sálfræðinga, meinatækna, félagsfræðinga auk margra annarra. Hvorki meira né minna en 60 manna starfslið á að vera á þessari heilsugæzlustöð.

Auðvitað er ágætt að geta útvegað sálfræðingum og félagsfræðingum vinnu. En menn vilja gjarnan fá að vita, hvernig heildarmyndin lítur út, þegar slíkum heilsugæzlustöðvum hefur verið komið upp um allt land, svo sem lög gera ráð fyrir.

Endar þetta með því, að þjóðin skiptist í tvo hluta, annars vegar í minni hluta sjúklinga og hins vegar í meirihluta þeirra, sem atvinnu hafa af heilbrigðismálum? Endar þetta með því, að ekki verður til fé til að reisa önnur hús hér á landi en heilbrigðisstofnanir? Endar þetta með því, að allt fé ríkisins rennur til heilbrigðismála?

Trúlegt er, að þjóðfélagið snúist til varnar gegn slíkri þróun. Ofkeyrsla á takmörkuðum sviðum heilbrigðismálanna mun því sennilega leiða til stöðnunar á öðrum sviðum þeirra. Við höfum nú að undanförnu heyrt á aðeins tveimur sviðum heilbrigðismála hugmyndir, sem kosta munu á ári hverju nokkur hundruð milljónir króna í stofnkostnaði og ekki undir einum milljarði í rekstri.

Þessar hugmyndir tvær einar ofbjóða því greiðslugetu þjóðarinnar, sem hefur líka aðrar þarfir, bæði í heilbrigðismálum og á öðrum sviðum. Er engin leið að fá í hendur áætlanir, sem taka þótt ekki væri nema örlítið tillit til greiðslugetu þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið