Dómsmálaráðherrar hafa oftast sætt gagnrýni fyrir embættaveitingar sínar. Þeir hafa stundum hneigzt til að taka flokksbræður sina fram yfir aðra umsækjendur, sem betur væru að embættinu komnir. Yfirleitt hefur þessi gagnrýni verið réttmæt. Meira máli skiptir þó, að hún hefur í ýmsum tilvikum leitt til heilbrigðari embættaveitinga.
Með tilkomu Ólafs Jóhannessonar í embætti dómsmálaráðherra hefur þetta gamla vandamál magnazt á nýjan leik. Fara verður langt aftur í tímann til að finna hliðstæða einstefnu í embættaveitingum. Með einni eða tveimur undantekningum hefur einlit hjörð framsóknarmanna verið skipuð í laus embætti dómara, fógeta og lögreglustjóra, síðan vinstri stjórnin tók við völdum.
Nú síðast var Björn Ingvarsson lögreglustjóri skipaður yfirborgardómari. Til þess er hann vissulega hæfur, auk þess sem hann er góðs maklegur eftir árangursríkt starf í erfiðu embætti. Það er því auðveldara að nota þetta tækifæri en annað til að ræða æsingalaust um hið alvarlega siðferðislega vandamál, sem núverandi dómsmálaráðherra á almennt við að stríða í embættaveitingum sínum.
Dómsmálaráðherra hefur skipað lögreglustjóra í Hornafirði og Bolungarvík, fógeta á Ísafirði, dómara og tollstjóra í Reykjavík, auk hæstaréttardómara. Í sumum þessara tilvika hefur hann gengið gróflega framhjá reyndum embættismönnum til að koma að framsóknarmönnum, sem enga reynslu höfðu í skyldum störfum.
Þessi einstefna hefur ekki vakið mikið umtal. Ein af ástæðunum fyrir því er, að ríkisstjórnin hefur gefið nægilega höggstaði á sér á öðrum sviðum. Embættaveitingar dómsmálaráðherra hafa fallið í skugga annarra vandamála, sem ríkisstjórnin hefur átt við að stríða.
En ekki er hægt að líta framhjá annarri orsök, sem ekki er síður alvarleg. Menn virðast ekki gera sömu kröfur til þessarar ríkisstjórnar og annarra og þá ekki frekar í embættaveitingum en á öðrum sviðum. Það er þungur dómur yfir ríkisstjórninni, ef menn telja embættaveitingar dómsmálaráðherra vera sjálfsagða skrautfjöður í trúðshatti ríkisstjórnarinnar.
Þess vegna væri það ríkisstjórninni í hag, að Ólafur Jóhannesson sæi framvegis að sér, minnugur þess, að siðferðileg mistök stjórnvalda eru til þess fallin að grafa undan siðgæðishugmyndum þjóðarinnar í heild. Sá skaði getur verið varanlegri en það tjón, sem unnið er á efnahag þjóðarinnar með vanhugsuðum aðgerðum í fjármálum og efnahagsmálum.
Atvinnuvandamál framsóknarmanna geta ekki verið svo alvarleg, að dómsmálaráðherra þurfi framvegis að grípa til jafn dapurlegra embættisveitinga og hingað til.
Jónas Kristjánsson
Vísir