Tímaritið Frjáls verzlun skýrði nýlega frá því bæði á forsíðu og inni í blaði, að Útvegsbankinn væri um það bil að verða gjaldþrota. Þessar fréttir komu í kjölfar almennrar vitneskju um, að Útvegsbankinn ætti við ýmsa erfiðleika að etja umfram aðra banka.
Dagblaðið kannaði þetta mál mjög rækilega og birti um það forsíðufrétt á föstudaginn var. Komst blaðið að raun um, að bankinn stóð nógu tæpt til þess, að á vegum Seðlabankans er unnið að víðtækum aðgerðum til bjargar honum.
Dagblaðið skýrði frá því, að lán Útvegsbankans til útgerðarinnar væri helzta vandamál hans. Ennfremur hefði bankanum ekki tekizt að halda hlutdeild sinni í almennum innlánsviðskiptum sparifjáreigenda.
Dagblaðið skýrði einnig frá því, að bankastjórar Seðlabankans hefðu nýlega boðað bankastjóra Útvegsbankans á sinn fund til að gera þeim grein fyrir hinni alvarlegu stöðu bankans gagnvart Seðlabankanum, er yfirdrátturinn var 31. janúar kominn upp í 1.1 milljarð króna.
Dagblaðið skýrði loks frá því, að Seðlabankinn hygðist bjarga bankanum með því að færa aðstöðu milli ríkisbankanna. Yrði Búnaðarbankinn látinn taka að sér útibú Útvegsbankans á Seyðisfirði og Landsbankinn látinn taka Patreksfjörð, en báðir þessir staðir munu hafa verið Útvegsbankanum þungir í skauti.
Í staðinn hafði Seðlabankinn ákveðið, að Útvegsbankinn fengi tvo og jafnvel þrjá feita bita á Reykjavíkursvæðinu eins og til dæmis Seltjarnarnes og Hafnarfjörð. Síðar hefur komið í ljós, að þriðji bitinn er nýtt útibú bankans í Kópavogi.
Í Landsbankanum og Búnaðarbankanum eru menn lítt hrifnir af þessum björgunaraðgerðum og hið sama má segja um fórnardýrin á Reykjavíkursvæðinu.
Til dæmis hafði um langt skeið verið sameiginlegur vilji bæjarstjórnar Seltjarnarness og Landsbankans, að sá banki setti þar upp útibú, þegar bæjarfélagið væri orðið nógu stórt til þess.
En menn geta lítið gert, þegar tilskipanir koma frá þeirri stofnun í þjóðfélaginu, sem er voldugri en sjálf ríkisstjórnin. Munu allir aðilar sennilega láta Seðlabankann kúga sig í þessu máli.
Athyglisverð eru viðbrögð ráðherra og þingmanna við þessum upplýsingum Dagblaðsins. Enginn sagði neitt, þegar Frjáls verzlun sagði gjaldþrot Útvegsbankans yfirvofandi. En heilum degi er eytt í umræður á alþingi um svokallaða æsifréttamennsku, þegar Dagblaðið skýrði frá staðreyndum málsins.
Í umræðum þessum var allt staðfest, sem Dagblaðið hafði sagt um orsakir erfiðleika Útvogsbankans og björgunaraðgerðir Seðlabankans, svo og allt annað, sem Dagblaðið hafði um málið að segja.
Samt leyfa Ólafur Jóhannesson bankamálaráðherra og nokkrir þingmenn, sem hafa hagsmuna að gæta, sér að tala um “rangar upplýsingar” og “fjarstæðu”. Í þessum marklausu og röklausu fúkyrðum kemur greinilega fram tillitsleysi þessara stjórnmálamanna gagnvart sannleikanum og miðlun hans til fólksins í landinu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið