Þjóðhagslegt tjón Íslendinga af innlendri smjörframleiðslu nemur um 4000 milljónum króna á ári á núverandi verðlagi. Og fjóra milljarða króna mætti nota til margs annars, ef þeir lægju á lausu.
Efnahagsbandalagið framleiðir of mikið af smjöri. Sá vandi bandalagsins eykst með hverju árinu og engin breyting til batnaðar er fyrirsjáanleg. Talsmenn þýzka landbúnaðarráðuneytisins sögðu höfundi þessa leiðara nýlega, að vandinn virtist óleysanlegur.
Afleiðingin er sú, að bandalagið reynir að losna við hluta af smjörfjalli sínu á gjafverði. Fyrir skömmu tókst því að losna við 30.000 tonn til Sovétríkjanna á sem svarar 108 íslenzkum krónum kílóið.
Að sjálfsögðu er mjög snjallt að notfæra sér vandræði Efnahagsbandalagsins eins og Rússar gera. Ef menn geta tímasett kaup sín skynsamlega, t.d. með því að kaupa allt magnið einu sinni á ári eða einu sinni á tveggja ára fresti, geta þeir náð ótrúlega lágu verði.
Ef við ímyndum okkur eina ögurstund, að Ísland ætti ekkert smjörfjall og hefði enga smjörframleiðslu, gætum við leikið sama leik og Rússar. Við gætum hagnazt á kerfisbundnu landbúnaðaröngþveiti Efnahagsbandalagsins í stað þess að gefa því okkar offramleiðslu.
Við notum 1.400 tonn af smjöri á ári. Þetta magn gætum við fengið á 150 milljónir íslenzkra króna hjá Efnahagsbandalaginu, ef engin smjörframleiðsla væri hér í landinu.
Þetta mundi ekki kosta okkur nokkurn gjaldeyri, heldur þvert á móti spara hann. Við notum nefnilega meiri gjaldeyri en þetta til nauðsynlegra aðfanga smjörframleiðslunnar, svo sem í olíu og bensín, fóðurbæti og áburð, vélar og tæki.
Eitthvað mundi það kosta okkur að flytja inn 1.400 tonn af smjöri, þótt flutningunum væri hagað á skynsamlegan hátt. Við getum gizkað á, að vel mætti komast af með 50 milljónir króna í því skyni.
Þar með væru ársbirgðir okkar af bandalagssmjöri komnar upp í 200 milljónir króna.
Ef við vöknum svo upp af þessum draumi og könnum, hvað 1.400 tonn af innlendu smjöri kosta okkur, kemur í ljós, að við borgum ekki 200 milljónir króna, heldur 4.200 milljónir króna.
Neytandinn borgar 1.150 krónur fyrir hvert kíló af smjöri. Til viðbótar borgar ríkið 1.887 krónur fyrir sama kíló. Samtals kostar smjörkílóið því 3.037 krónur.
Þegar þessi upphæð er margfölduð með 1.400.000 kílóa ársneyslu, kemur í ljós, að smjörið kostar okkur 4.200 milljónir króna. Það er 4.000 milljónum króna of mikið. Hvert kíló er raunar 20 sinnum dýrara en það væri, ef við gætum flutt það inn.
Auðvitað mundi neytendur muna um að fá smjörkílóið á 143 krónur í stað 1.150 króna. Auðvitað mundi ríkið og skattgreiðendur muna um 2.640 milljón króna lækkun niðurgreiðslna. Loks mundi þjóðfélagið muna um lækkun gjaldeyriskostnaðar af aðföngum landbúnaðarins.
Í rauninni er fáránlegt að leggja áherslu á landbúnað hér á landi við veðurfarslegar og landfræðilegar aðstæður, sem engan veginn standast samjöfnuð við Efnahagsbandalagið og Bandaríkin.
Smjörframleiðslan ein veldur okkur um 4.000 milljón króna tjóni á ári. Og smjörið er bara hluti allrar vitleysunnar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið