Þar blómstrar auðvaldið.

Greinar

Í Júgóslavíu hafa verið gerðar tilraunir til að leyfa einkarekstur í smáum stíl í samkeppni við opinberan rekstur og samvinnurekstur. Afleiðingin er sú, að starfsmenn fá þrefalt kaup og eigendur verða milljónamæringar.

Við Adríahafið hafa á undanförnum árum risið hallir nýríkra manna. Utan við hallirnar eru dýrustu bátar og bílar. Þetta hefur farið í taugarnar á mörgum ráðamönnum, en stjórnvöld hafa enn ekki lagt til atlögu gegn eigendunum.

Þarna búa ekki forstjórar ríkisverksmiðja né aðrir þeir, sem teljast til “hinnar nýju stéttar” í ríkjum Austur-Evrópu. Þetta eru iðjuhöldar og verzlunarkóngar í vestrænum stíl.

Jure Bilic, forseti þingsins í Króatíu, hefur haldið því fram, að þeir menn skipti þúsundum í landinu, sem hafi náð í eignir, er séu yfir 200 milljónir íslenzkra króna að verðmæti. Samkvæmt biblíum þjóðfélagsins teljast slíkir menn arðræningjar.

Stjórnvöld í Júgóslavíu eru hins vegar ekki eins rétttrúuð og stjórnvöld í öðrum ríkjum Austur-Evrópu Þau hafa rannsakað fyrirbæri hinna nýríku manna og komizt að raun um, að gróði þeirra byggist sjaldnast á arðráni.

Margir Júgóslavar, sem hafa unnið í Vestur-Þýzkalandi og annars staðar í Vestur-Evrópu, hafa lagt fyrir peninga til kaupa á sniðugum tækjum og áhöldum til iðnaðar. Þetta dót hafa þeir flutt með sér heim og hafið einkarekstur með því.

Framleiðni fyrirtækja þeirra er margföld á við framleiðni hinna opinberu fyrirtækja og samvinnufyrirtækja, sem þau keppa við. Í rétttrúuðu fyrirtækjunum hafa menn ekki sama áhuga á vestrænum trúaratriðum á borð við nýja tækni, framleiðni og hagræðingu.

Aðrir verðandi auðvaldseggir hafa ekki einu sinni betri tæki en notuð eru í samkeppnisfyrirtækjunum. Þeir kunna bara betur en opinberu starfsmennirnir að hagræða störfum, þannig að hver vinnustund skilar margföldum árangri.

Algengt er, að einkafyrirtæki af þessu tagi borgi starfsmönnum sínum 10.000 krónur á dag, sem er þrefalt hærra en meðallaun verkamanna í Júgóslavíu. Lægstu mánaðarlaun í landinu eru 35.000 krónur, svo að launamenn í einkafyrirtækjum eru aðeins þrjá og hálfan dag að ná þeim.

Þannig græða bæði eigendur og starfsmenn einkafyrirtækja í Júgóslavíu. Þar á ofan hefur þessi pólitíska villutrú skapað betra efnahagsjafnvægi í landinu. Einkafyrirtækin útvega nefnilega fljótt og vel ýmsa hluti, sem kerfið vantar.

Hin opinberu fyrirtæki snúa sér í vaxandi mæli til einkafyrirtækjanna, ef þau vanhagar um varahluti, verkfæri eða bara skrúfur, sem hvergi fást. Þessi opinberu fyrirtæki þurfa því ekki að stöðva reksturinn um tíma eins og algengt er í fyrirtækjum annars staðar í Austur-Evrópu.

Þrátt fyrir þetta er ekki öruggt, að einkarekstur verði framvegis leyfður í svona ríkum mæli í Júgóslavíu. Velgengni auðvaldsins og starfsmanna þess hefur nefnilega ekki eingöngu jákvæðar hliðar að mati þeirra stjórnvalda, sem viðurkenna þó, að um arðrán sé ekki að ræða.

Það er nefnilega að renna upp fyrir þjóðum Júgóslavíu, að hinn pólitískri rétttrúnaður í landinu er byggður á sandi og að meira er varið í hina vestrænu villutrú. Ótrúlegt er, að kerfið þoli lengi, að rætur sósíalismans séu nagaðar á þennan hátt.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið