Lögreglumenn í Genúa á Ítalíu hafa játað að hafa falsað sönnunargögn til að verja árás á skóla fyrir hálfu örðu ári, þar sem þeir misþyrmdu 72 andstæðingum hnattvæðingar, sem mótmæltu fundi átta helztu iðnríkja heims. Yfirlögregluþjónninn Pietro Troiani hefur játað að hafa komið fyrir benzínsprengjum, sem mótmælendur voru sakaðir um að hafa gert. Lögreglustjórinn Franco Gratteri hefur játað að hafa sett á svið hnífsstungu, sem mótmælendur voru sagðir hafa veitt lögreglumanninum Massimo Nucera. Einn mótmælandi var drepinn í þessum frægu óeirðum í Genúa, sem nú er viðurkennt að voru lögregluóeirðir. Frá þessu sagði í BBC í gær. Á Vesturlöndum er vaxandi uggur um, að vestræn lögregluyfirvöld séu ekki vönd að meðölum og muni notfæra sér hræðslu almennings við hryðjuverk til að beita þá hörðu, sem fara í taugar stjórnvalda, hvort sem það eru Falun Gong eða annað fólk á svörtum listum stjórnvalda.