Það vorar eftir vetur

Greinar

Svartasta skammdegið er sá tími, er hinir bjartsýnu verða raunsæir og hinir raunsæju verða svartsýnir. Tími myrkursins endurspeglast í tilfinningum og hugsunum fólks enn þann dag í dag, þrátt fyrir tækni nútímans, rafmagn, ljós og hita.

Á þessum vetri hefur skammdegið verið óvenju svart fram að þessu. Náttúruöflin og efnahagshorfurnar hafa dregið úr bjartsýni manna og magnað svartsýnina. Það er þungt að þreyja þorrann, þegar mönnum finnst svo óralangt til vors.

Hvassviðri og stormar hafa geisað í óvenjulegum mæli að undanförnu. Fannfergi er víða um land með því mesta, sem elztu menn muna. Snjóflóð hafa verið tíðari og hrikalegri en við eigum að venjast. Mannskaðinn mikli á Norðfirði er sorglegasta dæmið um eyðingarmátt náttúrunnar á þessum vetri.

Víða um land hefur orðið mikið tjón af völdum slíkra hamfara. Bílar, tæki og búfé hafa fokið og húsþök hafa skemmzt. Sums staðar hefur hurð skollið nærri hælum og skaðar takmarkazt við eignatjónið eitt, en mannslífin staðið tæpt.

Samgöngur á landi hafa verið í molum undanfarnar vikur. Oftast hefur verið ófært milli byggða og stundum jafnvel ófært dögum saman innan kaupstaða og kauptúna. Fannfergið hefur sums staðar verið svo mikið, að menn hafa rekið merkistengur í snjóinn til að sýna, hvar bílar þeirra væru í sköflunum.

Atvinnulíf hefur stundum farið úr skorðum af þessum sökum. Menn hafa ekki komizt til vinnu eða að vinnudagur þeirra hefur farið fyrir lítið vegna samgönguerfiðleika og rafmagnstruflana. Við höfum enn einu sinni rekið okkur á, hve erfitt er að halda uppi lífsgæðaþjóðfélagi hér norður á hjara veraldar.

Efnahagsveturinn hefur einnig verið harður. Útþensla opinberrar þjónustu og versnandi viðskiptakjör gagnvart umheiminum höfðu þegar sprengt kerfið fyrir haustið. Síðan hafa viðskiptakjörin haldið áfram að versna í vetur. Þjóðin tók í haust á sig byrðar rýrari lífskjara, en stendur nú andspænis því efnahagsfrosti að byrðarnar reynast ekki nægar.

Hin öra gjaldeyrisrýrnun hefur haldið áfram og endar með þroti, ef ekki kemur til gengislækkunar eða annarra umfangsmikilla ráðstafana. Sjálf undirstaðan, sjávarútvegurinn og fiskiðnaðurinn, á í meiri fjárhagskreppu en verið hefur árum saman. Þessar staðreyndir hafa lagzt á sveif með náttúruöflunum og gert skammdegið svartara en ella.

Í fyrra kom vorið snögglega eftir stuttan og harðan vetur. Við vonum, að svo verði einnig að þessu sinni. Við vonum líka, að það verði ekki náttúruöflin ein, sem mildist, heldur vori einnig í efnahagsmálunum. Við vonum, að viðskiptakjörin gagnvart umheiminum fari að batna, þótt þess sjáist enn engin merki. Og við vonum, að við höfum á næstu vikum manndóm í okkur til að þreyja efnahagsþorrann og bera auknar byrðar, unz tekur að vora á því sviði.

Undanfarnir góðviðrisdagar eftir harðindakaflann gætu orðið til að efla sjálfstraust og bjartsýni á, að á öllum sviðum komi vor eftir þennan vetur eins og aðra vetur.

Jónas Kristjánsson

Vísir