Samkomulag við Breta í landhelgisdeilunni má nú heita alveg öruggt. Lúðvík Jósepsson hefur orðið undir í ríkisstjórninni. Fremur en að slíta stjórnarsamstarfinu hefur hann kosið að beygja sig með semingi, þrátt fyrir herskáar yfirlýsingar í kjölfar samningsgrundvallar brezka og íslenzka forsætisráðherrans.
Stjórnarandstaðan hafði tekið tiltölulega vel í samningsgrundvöllinn. Ólafur forsætisráðherra var því ekki upp á náð Lúðvíks kominn í þessu máli. Ljóst var, að væntanlegur samningur mundi fá mikinn meirihluta á alþingi, þegar til staðfestingar kæmi. Þessa stöðu hefur forsætisráðherra notfært sér vel.
Utanríkisráðherra mun nú einn ganga frá samkomulaginu við Breta, án þess að Lúðvík komi þar nærri. Þessi frágangur ætti ekki að þurfa að taka langan tíma. Á meðan mun friður vafalaust haldast á miðunum. Þorskastríðinu hefur því verið aflétt að sinni.
Mikilvægasta atriði samningsgrundvallarins er, að hann er aðeins til bráðabirgða. Hann bindur á engan hátt hendur Íslendinga til frambúðar. Við getum unnið ótrauðir áfram að 200 mílna auðlindalögsögu og lýst yfir slíkri landhelgi þegar á næsta ári eins og sjálfskæðismenn hafa lagt til.
Alþjóðlega viðurkennd 200 mílna auðlindalögsaga er okkar stóra mál. Öll deilan um 50 mílurnar hverfur í skugga þess. Við teljum okkur munu eiga 200 mílurunnar í kjölfar hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þess vegna skiptir öllu máli í samningnum við Breta, að við bindum ekki hendur okkar í 200 mílna málinu. Og sem betur fer er engin slík binding í samningsgrundvelli þeim, sem nú liggur fyrir.
Þetta tvennt er kjarni málsins, annars vegar friðurinn á miðunum og hins vegar óskert athafnafrelsi í 200 mílna málinu. Ákvæðin um aflamagn, skipastærð, friðunarsvæði og tímaskiptingu eru allt minni háttar málamiðlunaratriði, léttvæg í samanburði við stóru atriðin.
Hinu er ekki að leyna, að samningsgrundvöllurinn gerir kleifa fleiri en eina túlkun á því, hvernig lögsagan verði framkvæmd á svæðum þeim, sem samningurinn mun ná til. Forsætisráðherra virðist telja eins konar heiðursmannasamkomulag nægilegt á því sviði. Það kann að vera rétt metið hjá honum. Og svo getum við auðvitað lýst samninginn ógildan, ef Bretar rjúfa heiðursmannasamkomulagið. Við þurfum því líklega ekki að hafa verulegar áhyggjur af þessu atriði, þótt í því felist nokkur áhætta.
Við getum því í höfuðatriðum verið ánægð með samningsgrundvöllinn, þótt í honum felist ýmsar eftirgjafir af okkar hálfu. Það er þó Heath, forsætisráðherra Bretlands, sem af síðbúnu raunsæi hefur stigið stærsta skrefið til samkomulags. Og við getum verið jafn ánægð með þá málsmeðferð ríkisstjórnarinnar,að Einar Ágústsson gangi frá málinu án aðstoðar Lúðvíks Jósepssonar.
Jónas Kristjánsson
Vísir