Þá höfum við það.

Greinar

Rofin hefur verið hin óbærilega þögn ríkisstjórnarinnar um ástand og horfur í efnahagsmálunum og hugsanlegar úrbætur. “Sterki maðurinn” í ríkisstjórninni, Ólafur Jóhannesson, hefur komið fram í dagsljósíð og er ómyrkur í máli.

Ólafur sagði á fundi framsóknarmanna á miðvikudagskvöldið, að batahorfur væru litlar í efnahagsmálum og að enn væri ekki unnt að fullyrða, hvort tækist að sneiða hjá atvinnuleysi í framtíðinni, því að grundvöllur flestra atvinnuvega væri veikur. Kaupmáttur fólks hefði á einu ári rýrnað um 13-14%, en samt lifði þjóðin enn um efni fram.

Ólafur skýrði frá því, að væntanlegt fjárlagafrumvarp rikisstjórnarinnar mundi hækka mun minna en sem svarar vexti dýrtíðar milli ára. Það fæli því í sér sársaukafullan niðurskurð, bæði á rekstri og framkvæmdum ríkisins. Þetta væri nauðsynlegt vegna þenslunnar í landinu.

Þessar upplýsingar eru óvenju ánægjulegar. Staðreyndin er nefnilega sú, að ríkissjóður er sá aðili þjóðfélagsins, sem mest allra hefur lifað um efni fram á undanförnum árum. Það er einmitt ríkissjóður, sem er að setja þjóðfélagið á höfuðið. Samdrátturinn á því að byrja þar og vera mestur þar.

Einnig var ánægjulegt að frétta eftir Ólafi, að ekki yrði gripið til innflutningshafta, þótt aðgæzlu væri þörf í fjármálunum. Hann kvað haftastefnu óheilbrigða. Er það vonandi merki þess, að Framsóknarflokkurinn sé endanlega hættur að gæla við þá stórhættulegu stefnu, sem orðið hefur þjóðinni til mikils tjóns á undanförnum áratugum.

Ólafur lagði sérstaka áherzlu á, að gengislækkun kæmi ekki til greina, nema ófyrirsjáanlegar breytingar verði. Ekki er ljóst, hvað hann á við með þessu. Annaðhvort telur hann gengið rétt skráð og gjaldmiðilinn tiltölulega traustan, sem verður þó að teljast nokkuð ótrúlegt, eða þá hitt, að ríkisstjórnin þorir ekki að fikta við gengið af ótta við nýjar vinnudeilur, sem virðist mun líklegra.

Ef Ólafur fær að ráða, má búast við, að ríkisstjórnin geri tilraunir til að færa niður laun og verðlag í landinu til að stemma stigu við verðbólgunni. Hins vegar verður að taka slíkum hugmyndum með mikilli varúð, því að þær virðast enn sem komið er vera allt of óljósar og þokukenndar.

Ólafur minntist enn einu sinni á, að þjóðin lifði um efni fram, þrátt fyrir 13-14% kjararýrnun á aðeins einu ári. Hvatti hann til þess, að hófs yrði gætt og sanngirni sýnd í kaupkröfum. Vel getur verið, að launþegasamtökin hlusti á slíkar fortölur, ef ríkisstjórnin gengur á undan með góðu fordæmi.

Einna athyglisverðust var þó sú yfirlýsing Ólafs, að hvorugur stjórnarflokkurinn mundi hlaupast undan þeirri byrði, sem ríkisstjórnin verður að axla. Þeim stjórnarandstæðingum, sem hafa verið að spá stjórnarslitum,virðist því ekki ætla að verða að ósk sinni. Verðum við að vona, að þessi samstaða eða skortur á sundurlyndi í ríkisstjórninni verði þjóðinni til góðs í yfirvofandi erfiðleikum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið