Taprekstur láglaunafólks

Greinar

Hin slæma útreið láglaunafólks í verðbólgu síðustu ára veldur því, að umboðsmönnum þess á samningafundum þykir lítið varið í tilboð atvinnurekenda, sem felur í sér 3.475 króna hækkun á 75.000 króna laun og 1.800 króna hækkun á 100.000 króna laun.

Tilboðið kemur nánast ekkert til móts við sanngjarna kröfu um 111.000 króna lágmarkslaun í landinu. Öllum sanngjörnum mönnum má vera ljóst, að mikill taprekstur er á heimilisrekstri barnafjölskyldna með slíkar tekjur. Og taprekstur af því tagi er að sjálfsögðu alvarlegri en nokkur annar taprekstur í landinu.

Reyndar er málið ekki svona einfalt. Langflest heimili hafa meiri tekjur en þetta bæði vegna mikillar yfirvinnu og vegna þess að fleiri en einn af heimilisfólki vinna úti. En það er löngu kominn tími til, að atvinnurekendur geri upp við sig, hvort þeir sjálfir tapi ekki á hinni gegndarlausu vinnuþrælkun, sem komizt hefur í vana hér á landi.

Ekki má heldur gleyma því, að yfirvinnutekjur eru ótryggar. Samdráttur í atvinnulífinu getur í einu vetfangi kippt undan þúsundum heimila þessari undirstöðu sómasamlegra lífskjara.

Hins vegar verðum við líka að minnast þess, að tilboð atvinnurekenda er í samræmi við greiðslugetu atvinnulífsins um þessar mundir. Hærra tilboð mundi vafalaust leiða til útbreidds taprekstrar íslenzkra fyrirtækja og samdráttar í atvinnulífinu, ef ekki kæmu til hinar meira eða minna sjálfvirku verðhækkanir, sem hér á landi fylgja jafnan í kjölfar kjarasamninga.

Ef litið er með sanngirni á sjónarmið beggja deiluaðila, gæti málið virzt óleysanlegt. Það er slæmt að þurfa að velja á milli tveggja vondra kosta, taprekstrar heimilanna og taprekstrar fyrirtækjanna. Kakan, sem er til skiptanna, er hreinlega of lítil.

Raunar er bæði broslegt og grátlegt, að samtök vinnumarkaðsins skuli vera komin í hár saman út af köku, sem þriðji aðilinn hefur stolið frá þeim. Það er nefnilega hið opinbera, sem hefur á fáum árum stækkað sneið sína af kökunni úr 28% í 36%,. Það er sá glæpur, sem hefur gert kjarasamninga síðustu ára að sorglegum skrípaleik.

Hvorki heimilin né fyrirtækin hafa efni á að standa undir þessari miklu útþenslu hins opinbera á fáum árum. Ef ríkið skilaði aftur 8% af kökunni, mundi vera unnt að gera kjarasamninga án taprekstrar heimila og fyrirtækja. Tilboð ríkisstjórnarinnar um þriggja milljarða skattalækkun er spor í rétta átt.

En ríkisstjórnin þarf að gera mun betur og getur gert það. Mest gæti hún gert, ef hún þyrði að framkvæma ýmsar framkomnar tillögur um breytta stefnu gagnvart landbúnaði, auðlindaskatti, stofnlánum, vaxtamisræmi og á fleiri sviðum.

Meðan ríkisstjórnin heldur að sér höndum og neitar að axla ábyrgðina af eigin misgerðum, eiga þeir, sem utan við standa og horfa á, ekki annars kost en að segja: Taprekstur heimilanna er alvarlegri en taprekstur fyrirtækjanna.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið