Ríkistjórnin hefur þegar tapað styrjöld sinni við verðbólguna án þess að til verulegra átaka hafi komið. Hin nýju efnahagslög ríkisstjórnarinnar eru þess eðlis, að verðbólgan mun halda áfram af fullum krafti á næsta ári.
Svo mikill reykur stígur enn upp af vígvellinum, að ósigur ríkisstjórnarinnar er mönnum ekki ljós. Hún heldur því sjálf fram, að hún hafi sigrað í þessum bardaga. Með efnahagslögunum hafi hún stigið mikilvægt skref til hjöðnunar verðbólgu.
Efnahagslögin leggja þungar byrðar á ríkissjóð. Af ummælum ráðherra Framsóknarflokksins og Alþýðubandalagsins er ljóst, að þessum byrðum verður ekki mætt með samdrætti í útgjöldum á öðrum sviðum.
Fjármálaráðherra hefur lagt mikla áherzlu á, að tekjuskattur sé ekki nógu hár hér á landi. Hann veit auðsjáanlega ekki, hvað hann er að tala um.
Annars vegar er um að ræða norræna milljónamæringa og hins vegar íslenzkt launafólk af ýmsu tagi, útivinnandi hjón, næturvinnu- og ákvæðisvinnufólk.
Þetta er fólkið, sem lendir á hæsta skattþrepi. Hins vegar sleppa þeir, sem betur mega, einnig eftir næstu skattahækkun Tómasar. Þeir hafa nefnilega tekjur, sem ekki mælast á skattaskýrslum.
Enn hefur ekki komið í ljós, hve mikill tekjuauki ríkissjóðs þarf að vera til að mæta efnahagslögunum, ef ekki á að spara neitt á móti. Talað hefur verið um fimmtán milljarða króna og verður sú ágizkun að duga á þessu stigi málsins.
Áður en þessi baggi kom til sögunnar var ríkisstjórnin búin að leggja fram afleitt fjárlagafrumvarp, sem gerði ráð fyrir hækkun hlutdeildar ríkisbúsins af þjóðarbúinu um 3 prósentustig.
Sú hækkun úr 28,5% í 31,5% hlutdeild jafngildir að minnsta kosti 10% hækkun hlutdeildar ríkisbúsins af þjóðarbúinu. Vegur þar ríkisstjórnin í sama knérunn og helmingaskiptastjórnin gerði á undan henni og vinstri stjórnin þar á undan.
Efnahagslögin nýju bætast svo ofan á þetta. Fastlega má gera ráð fyrir, að þau leiði til hækkunar hlutdeildar ríkisbúsins um 6 prósentustig.
Þar með verður ríkisstjórnin búin að slá öll fyrri met í útþenslu ríkisbáknsins. Og baráttu hennar við verðbólguna verður einmitt að skoða í því ljósi.
Undir vissum kringumstæðum getur ríkið hamlað gegn verðbólgu með því að auka tekjur sínar. En þá er tekjuaukinn líka lagður til hliðar og frystur til að minnka veltuna og þar með spennuna í þjóðfélaginu.
Núna er hins vegar ekki um neina frystingu að ræða. Það eru aukin útgjöld, sem kalla á tekjurnar. Ríkið eykur beinlínis umsvif sín og þar með spennuna í þjóðfélaginu. Þar með tryggir ríkið viðgang verðbólgunnar.
Einn fyrirvara verður að gera á þessu. Ef atvinnuvegir og almenningur mundu draga saman seglin á móti útþenslu ríkisbáknsins og raunar töluvert umfram hana, gæti þenslan í þjóðfélaginu minnkað.
Allir vita, að atvinnuvegirnir eru komnir í steik og geta engu á sig bætt. Ennfremur er ekki auðvelt að sjá, að leiðtogar launþegasamtaka, sem virðast hafa ríkisstjórnina í hendi sér, leyfi svo mikla kaupskerðingu, að verðbólgan minnki.
Þess vegna er fyrirvarinn ekki mikils virði. Barátta gegn verðbólgunni tekst á þann einn hátt, að ríkið dragi saman seglin meira en aðrir aðilar í þjóðfélaginu. Og sú verður ekki raunin að þessu sinni.
Þar með hefur ríkisstjórnin tapað stríðinu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið