Takmörkuð alvara.

Greinar

Forsætisráðherra lýsti yfir því í fyrradag, að ákveðið hefði verið að fresta um nokkrar vikur að fella úr gildi undanþágusamninginn við Vestur-Þýzkaland um veiðar í 200 mílna fiskveiðilögsögunni. Þessi samningur átti að falla úr gildi 1. maí, ef Þjóðverjum hefði ekki tekizt fyhrir þann tíma að fá framkvæmda umsamda tollalækkun Efnahagsbandalagsins á íslenzkum afurðum. Þetta hefur þeim ekki tekizt, en samt lætur ríkisstjórn okkar undan síga.

Undansláttur forsætisráðherra kemur svo sem ekki á óvart. Þetta minnir á aðra meðferð landhelgismálsins allar götur frá hinum fræga þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksisn í Borgarnesi,þegar núverandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra greiddu einir atkvæði gegn þeirri 200 mílna stefnu, sem flokkur þeirra tók síðan upp og gerði að helzta kosningamáli sínu í síðustu kosningum.

Í nokkur missei fyrir Borgarnesfundinn hafði núverandi ritstjóri Dagblaðsins skrifað hvern leiðarann á fætur öðrum í Vísi, þar sem hann hvatti til þess, að 200 mílna útfærsla tæki strax við af 50 mílunum. Þetta sjónarmið var í samræmi við vilja alls þorra kjósenda Sjálfstæðisflokksins, enda vann flokkurinn sinn mesta kosningasigur einmitt á loforðinu um tafarlausar 200 mílur.

Þetta kosningaloforð hefur síðan aðeins verið efnt að hluta. Það er ekki nóg að færa landhelgina formlega út í 200 mílur og standa síðan að meira eða minna leyti ekki við framkvæmd útfærslunnar. Ótal dæmi eru um, hvernig forsætisráðherra hefur dregið hælana í landhelgismálinuj. Frægust er margra vikna fyhrirstaðan gegn slitum á stjórnmálasambandi við Bretland.

Annað frægasta dæmið er Canossa-för ráðherrans til Bretlands, þaðan sem hann kom með 85.000 tonna tilboð Wilsons í farangrinum. Þessi sendiför fékk verðugan endi, þegar hvorki samráðherrar né samflokksmenn forsætisráðherra vildu telja þetta tilboð neinn grundvöll nýrra viðræðna.

Nú hafa sjómenn komizt að því, að vesturþýzkir togarar eru látnir afskiptalausir, þótt þeir þverbrjóti undanþágusamninginn. Þessi brot ættu með réttu að stuðla að því, að samningurinn yrði numinn úr gildi 1. maí í samræmi við ákvæði sjálfs samningsins. Í stað þess fer Morgunblaðið, málgagn forsætisráðherra, hamförum í tilraunum til að vefengja brot Þjóðverja og rengja vitnin að þeim brotum.

Nýbirt gagnrýni Guðlaugs Gíslasonar alþingismanns á undansláttarstefnuna endurspeglar vel þá óánægju, sem ríkir hjá meirihluta þingmanna Sjálfstæðisflokksins og öllum þorra kjósenda flokksins. Þessi andúð vex við nýjasta undansláttinn gagnvart Þjóðverjum, sem verkar eins og yfirlýsing til Breta um, að ríkisstjórn Íslands sé takmörkuð alvara í landhelgisdeilunni.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið