Áhrif allsherjarverkfallsins magnast nú með degi hverjum. Völdin í þjóðfélaginu hafa flutzt suður á Vínlandsbar Loftleiðahótelsins, og eru það ekki góð skipti, þótt margt megi að ríkisstjórn landsins finna.
Athyglisvert er, að samningamenn eru farnir að kvarta um, að ráðherrar láti ekki sjá sig á samningastað. Er þó mikið vafamál, að Canossa-göngur fyrri ráðherra suður á hótel hafi gert nokkurt gagn.
Hitt er svo líka rétt, að ríkisstjórnin hefur ekki gripið tækifæri, sem henni bauðst fyrir nokkrum vikum til góðra áhrifa á samningana. Þá stóðu báðir deiluaðilar að skynsamlegum tillögum til ríkisstjórnarinnar um skattalækkanir og samdrátt ríkísbáknsins.
Tillögur deiluaðila til ríkisstjórnarinnar báru þess greinileg merki, að báðir aðilar ráða yfir töluverðri hagfræðilegri þekkingu og átta sig á því, að gegndarlaus fjármálaóstjórn ríkisins er höfuðorsök rýrnunar lífskjara almennings á undanförnum misserum.
Venjulega hafa deiluaðilar krafizt fjárutláta af hálfu ríkisins, þótt slík milliganga hafi jafnan leitt til hækkunar beinna eða óbeinna skatta. Í þetta sinn kröfðust þeir hins vegar sparnaðar af hálfu ríkisins.
Sparnaður í ríkisrekstri og opinberum framkvæmdum leiððir beint til þess, að stærri hluti þjóðarteknanna verður afgangs til að bæta lífskjör almennings og greiðslugetu atvinnuveganna. Það er verulega sorglegt, að ríkisstjórnin skuli hafa hunzað hinar skynsamlegu tillögur deiluaðila í þessu efni.
Fyrir mánuði voru menn hóflega bjartsýnir á, að unnt yrði að ná samningum, sem bættu nokkuð lífskjör almennings án þess að magna verðbólguna. Aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar hefur gert þetta ókleift. Þess vegna er nú komið verkfall. og engar horfur á skynsamlegum samningum.
Sáttasemjari og sáttanefndarmenn hafa reynt að bæta úr þessu með því að skjóta í tvígang fram hugmyndum um samkomulagsgrundvöll. Samningamönnum launþega finnast þessar hugmyndir of lágar og samningamönnum vinnuveitenda finnast þær of háar. Þær eru líka á sama verðbólguplaninu og fyrri niðurstöður kjarasamninga.
Samningamálin eru komin í hnút og deiluaðilar saka hvorir aðra um óbilgirni. Eftir heiðarlegar en misheppnaðar tilraunir deiluaðila til vitrænna samninga er hin klassíska staða komin upp. Sennilega verður úr því sem komið er ekki hindrað, að niðurstaða verkfallsins verði verðbólgusamningar í gamalkunnum stíl.
Ef til vill hafa deiluaðilar ekki áttað sig á, hve svifasein og dáðlaus ríkisstjórnin er. Þeir hefðu á sínum tíma getað fylgt tillögum sínum ákveðnar eftir, í þeirri von að vekja ríkisstjórnina af svefni hennar. En nú er þetta orðið of seint.
Líklega er til of mikils ætlazt, að siðaskipti f kjarasamningum gerist í einu vetfangi. Heiðarlegar tilraunir deiluaðila að þessu sinni eiga vonandi eftir að bera ávöxt í næstu samningum, þótt það verði ekki í þessum. Og ef til vill situr þá ríkisstjórn, sem þekkir sinn vitjunartíma.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið