Sýnd veiði en ekki gefin

Greinar

Í sjónvarpinu á föstudaginn gaf Geir Hallgrímsson forsætisráðherra stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins kost á að strika sig út af framboðslistanum við næstu kosningar, ef þeir sætta sig ekki við andstöðu hans við sjónarmið, sem hlutu allan þorra atkvæða í skoðanakönnun meðal stuðningsmannanna.

Þetta er sýnd veiði, en ekki gefin. Öllum, sem þekkja kosningalögin, er ljóst, að útstrikanir eru aðeins fræðilegur möguleiki en ekki raunhæfur. Allur þorri sjálfstæðismanna í Reykjavík yrði að leggja hönd að verki, ef útstrikanir ættu að megna að koma öðrum manni listans niður í áttunda eða níunda sæti og þar með út af þingi.

Í næstu kosningum standa stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins ekki andspænis þeim vanda, hvort þeir eigi að strika út Geir Hallgrímsson eða ekki. Þeir standa í einrúmi kjörklefans andspænis þeim vanda, hvort þeir eigi að kjósa flokkinn eða ekki.

Menn verða að skoða mannalæti ráðherrans í þessu ljósi. Í þeim felst ekki persónulegt hugrekki, því að þau koma ekki niður á honum sjálfum, heldur flokki hans. Það er annað hugrekki en það, sem felst í bók John F. Kennedy um Hugprúða menn.

Þar er fjallað um menn, sem fórnuðu frama sínum fyrir skoðanir sínar. Í Sjálfstæðisflokknum er hins vegar um að ræða, hvort fórna eigi flokknum fyrir skoðanir formannsins. Þess sjást þar engin merki, að formaðurinn hyggist taka sjálfur afleiðingum skoðana sinna. Það á flokkur hans að gera.

Svipað má segja um þá yfirlýsingu Geirs Hallgrímssonar, að stjórnmálamenn eigi ekki að hlaupa á eftir almenningsálitinu, heldur móta það. Við skulum gleyma Napóleonsstílnum á orðavali formannsins og fjalla aðeins um, hver tekur afleiðingunum af því.

Niðurstaðan er hin sama og í fyrra dæminu. Það er flokkur hans, sem tekur afleiðingunum, en ekki formaðurinn. Það gerist í næstu kosningum. Hugrekkið er því ódýrt og mannalætin óviðkunnanleg.

Í kringum Geir Hallgrímsson standa nokkrir menn, flokkseigendurnir, sem hafa undirtökin í stofnunum flokksins. Þeir ætla hvorki að láta Geir né sjálfa sig gjalda fyrir mótlæti Geirs í prófkjöri og skoðanakönnun.

Þeir hyggjast halda áfram helmingaskiptum við flokkseigendur Framsóknarflokksins upp úr kjötkötlum ríkissjóðs. Þeir vita, að stjórnin heldur þingmeirihluta sínum, þótt Sjálfstæðisflokkurinn tapi nokkrum þingsætum. Fyrir þeim er aðalatriðið, að Geir sitji sem fastast og að Víðishús af ýmsu tagi verði keypt.

Nýjum mönnum og nýjum hugmyndum þarf að halda í hæfilegri fjarlægð, svo að sem mestur friður ríki við helmingaskipti stjórnarflokkanna. Þetta er innihaldið í loftköstulum síðustu daga um djörfung og dug. Þar eru á ferðinni menn, sem neita af hagsmunaástæðum að hlusta á almenna flokksmenn og hyggjast láta Sjálfstæðisflokkinn gjalda fyrir sambandsleysið.

Hitt væri svo hugrekki af hálfu Geirs, ef hann sneri við blaðinu og tæki tillit til nýrra manna og málefna í flokki sínum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið