Sykurver fyrir togaraverð.

Greinar

Þórarinn Sígurjónsson alþingismaður hefur flutt á þingi athyglisverða tillögu um, að ríkisstjórnin láti kanna, hvort hagkvæmt verði að reisa sykurhreinsunarstöð í Hveragerði.

Í greinargerð tillögunnar er vísað til ítarlegra athugana Hinriks Guð- mundssonar verkfræðings. Þar er miðað við verksmiðju, sem noti rafmagn og hveragufu til að framleiða úr hrásykri allar þær sykurtegundir, sem notaðar eru á Íslandi, strásykur, molasykur, flórsykur, púðursykur og kandís.

Til þessarar framleiðslu þarf um 11.600 tonn af hrásykri á ári, 33.000 tonn af gufu og l.300.000 kílówattstundir af rafmagni. Þetta vinnslumagn er við lægri mörk þess, sem talið er hagkvæmt. Erlendis er meðalstærð slíkra verksmiðja um 30.000 tonn af hrásykri á ári.

Verksmiðjan er svo lítil, að ekki er gert ráð fyrir, að hún geri mikið meira en að standa rekstrarlega í járnum. Hún á að skila af sér 100 milljón krónum á ári í vexti og arð af 1000 milljón króna stofnkostnaði.

Samkvæmt þessum tölum ætti þjóðin að vera orðin um það bil nógu fjölmenn til þess, að rekstur slíkrar verksmiðju geti borið sig. Síðan ætti reksturinn smám saman að geta batnað eftir því sem neytendum fjölgar og verksmiðjan afskrifast.

Hitt er svo annað mál, hvort sykurneyzla sé ekki óhæfilega mikil hér á landi og hvort heilbrigðisyfirvöld fara ekki að átta sig á nauðsyn áróðurs fyrir samdrætti í sykurneyzlu. Slík hliðaratriði þyrfti helzt að taka með í reikninginn.

Einna athyglisverðast við tillöguna og greinargerðina er, að verksmiðjan á ekki að kosta meira en eins og einn skuttogari af Spánarstærð mundi kosta, ef hann væri pantaóur núna. Hið sama gildir um ýmsar aðrar hugmyndir um nýiðnað á Íslandi. Stofnkostnaður þeirra er ekki hár, reiknaður í skuttogurum. Samt er hvorki til framtak né fjármagn til að ráðast í framkvæmdir.

Undanfarin ár hefur ástandið verið þannig, að sérhver, sem hefur látið sér detta í hug að eignast skuttogara, hefur getað það, af því að opinberir sjóðir hafa lánað frá 80% og yfir 90% kaupverðsins. Samt er ekki til fiskur í sjónum fyrir alla þessa skuttogara.

Þetta er gott dæmi um hina undarlegu fjármálastjórn hér á landi. Alþingi og ríkisstjórn eru með puttann í sérhverri krónu Og beina henni til svonefndra forgangsverkefna, tízkuframkvæmda hvers tíma. Að undanfórnu hafa skuttogarar verið í tízku.

Peningar hafa fengizt jafn sjálfkrafa í skuttogara eins og í framkvæmdir í landbúnaði. En til nýiðnaðar fást engir peningar. Gildir það jafnt um stórar eilífðarhugmyndir á borðó við saltvinnslu á Reykjanesi og smærri hugmyndir á borð við stálbræðslu í Reykjavík.

Slíkar hugmyndir liggja og rykfalla á vinnuborðum verkfræðinga og hagfræðinga, án þess að neins staðar sé sjáanlegt framtak né fjármagn til að ráðast í framkvæmdir. Samt vitum við, að lífskjór þjóðarinnar í náinni framtíð hljóta að byggjast á útþenslu iðnaðar, einkum þess nýiðnaðar, sem virðist rekstrarlega hagkvæmastur. Tillaga Þórarins er þörf áminning um þetta.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið