Sykursorg haftasinna

Greinar

Nokkrum kaupmönnum hefur tekizt að rjúfa sykureinokun hinna hefðbundnu innflutningsaðila á þessu sviði. Þeir hafa náð hagkvæmum innkaupum á sykri, sem þeir hafa til sölu á um það bil 240 krónur kílóið, í stað um það bil 410 króna kílóið í öðrum búðum.

Þetta sykurmál varpar skýru ljósi á viðskipta- og verðlagskerfi.okkar og sýnir, hvar spillingu þess er að finna.

Þegar alþjóðlegt sykurverð var sem hæst síðari hluta árs í fyrra, keyptu hinir hefðbundnu innflutningsaðilar okkar mikið magn af sykri, sem átti að endast fram yfir mitt þetta ár. Þetta gerðu þeir, þótt þeir vissu, að sykurverðið væri í þann veginn að hrapa.

Slíkar verðbreytingar eiga sér langan aðdraganda, sem rakinn er í sérgreinatímaritum og öðrum upplýsingum, er nær daglega berast stórkaupmönnum á þessu sviði sem öðrum. Og verðhrunið á sykrinum þótti svo sjálfsagt, að almenn fréttarit voru búin að spá því fyrir næstum heilu ári.

Fráleitt er að telja íslenzka sykurinnflytjendur einhverja undrabjálfa, sem viti ekkert, hvað er að gerast umhverfis þá. Ástæðan fyrir hinum dýra innflutningi er væntanlega allt önnur.

Fyrst og fremst hafa þeir séð eftir þeirri lækkun álagningar í krónutölu, sem hefði fylgt ódýrari innkaupum á sykri. Og hver þeirra fyrir sig hefur treyst því, að enginn hinna mundi hlaupa út undan sér í þessu máli.

En þeir vanmátu möguleikana á utanaðkomandi samkeppni. Kaupmennskan er nefnilega enn til með Íslendingum, þrátt fyrir niðurdrepandi áhrif kerfisins. Nokkrir kaupmenn tóku á sig að fá færri krónur í sinn hlut í álagningu á hvert sykurkíló til þess að laða til sín fleiri viðskiptavini. Þannig hrundi spilaborg sykurverðsins, íslenzkum neytendum tilmikilla hagsbóta.

Hinir hefðbundnu sykurinnflytjendur eru ekki sökudólgarnir í málinu. Meinið á rót sína að rekja til verðlagskerfisins, sem skammtar kaupmönnum ákveðna prósentutölu ofan á innkaupsverð vörunnar. Þetta hvetur kaupmenn til að kaupa sem dýrastar vörur í hverjum vöruflokki og hafa samstarf sín í milli um innkaupin.

Verðlagshöftin eru löngu aflögð í öðrum löndum, einnig á Norðurlöndum, þar sem jafnaðarmenn hafa lengst af verið við völd. Stjórnvöld í þessum löndum hafa áttað sig á, að verðlagshöftin gera illt verra. Þau hafa reynslu af því, að óbeint eftirlit, neytendafræðsla, einokunareftirlit og betri samkeppnisjarðvegur er vænlegri til árangurs en höftin.

Viðreisnarstjórnin var á sínum tíma komin á fremsta hlunn með að breyta okkar spillta kerfi eftir norrænni fyrirmynd og leggja niður beinu höftin. Því miður stöðvaði Alþýðuflokkurinn málið á síðustu stundu. Núverandi stjórn hefur svo tekið málið upp að nýju. Vonandi verður sykurmálið til þess að flýta frágangi laga um óbeint verðlagseftirlit, neytendafræðslu og einokunareftirlit í stað haftanna.

En það er dæmigert fyrir spillingu núverandi haftakerfis, að einn sykurinnflytjandinn, Samband íslenzkra samvinnufélaga, hefur beðið viðskiptaráðuneytið um að banna innflutninginn á ódýra sykrinum og telur sig hafa fengið hálfgildings vilyrði fyrir slíku banni.

Jónas Kristjánsson

Vísir