Sérfræðingarnir í svonefndri svartolíunefnd hafa fundið út, að Landhelgisgæzlan kasti á glæ um það bil 100 milljón krónum á ári með því að nota gasolíu í stað svartolíu á tvö nýjustu skipin, Tý og Ægi. Er þá miðað við fulla nýtingu skipanna eins og væntanlega reynist nauðsynleg í yfirvofandi þorskastríði.
Þeir hafa komizt að raun um, að vélar þessara tveggja flaggskipa gæzlunnar séu einmitt gerðar fyrir svartolíu Og raunar lélegri svartolíu en notuð er hér á landi. Slíkar vélar séu óvíða og sennilega hvergi nema hér keyrðar á öðru eldsneyti en svartolíu.
Þeir vitna líka í aðalsérfræðing framleiðanda vélanna. sem er á sama máli, svo og í tímaritið Motorship, þar sem hlutlausir aðilar telja svartolíu henta þessum vélum. Segist svartolíunefnd ekki skilja, hvers vegna ekki sé þegar í stað fyrirskipað að nota svartolíu á þessi tvö skip.
Svartolíunefnd reiknaði með, að eðlileg nýting þessara skipa væri 30 dagar á fullri ferð, 200 dagar á hálfri ferð og 70 dagar á fjórðungs ferð. Með slíkri nýtingu kostar gasolían 140 milljón krónur á skip, en svartolían aðeins 90 milljón krónur á skip.
Kostnaðurinn við aukabúnað vegna svartolíunnar nemur að mati nefndarmanna um 10% af sparnaði fyrsta ársins og kostnaðurinn við aukið vélaslit innan við 2% af árlegum sparnaði.
Með þessu virðist vera fundin leið til að halda varðskipunum miklu meira úti en nú er gert. Af sparnaðinum mætti greiða kostnað við skiptiáhöfn, svo að varðskipin geti í þorskastríðinu jafnan verið á sjó, þótt áhafnirnar taki sín eðlilegu frí.
Sparnaðurinn ætti líka að gera Landhelgisgæzlunni kleift að halda uppi tveimur áhöfnum á flugvél sinni. Þar með ætti hún að nýtast tvöfalt betur og gera kaup á viðbótarflugvél óþörf að sinni. Flugfélögin hafa fleiri en eina áhöfn á hverri flugvél sinni til að nýta fjárfestingarkostnaðinn sem bezt og ætti gæzlan að geta gert slíkt hið sama.
Svartolíunefnd hefur sent Landhelgisgæzlunni, dómsmálaráðuneytinu og sjávarútvegsráðuneytinu bréf með niðurstöðum sínum. Þótt nokkur tími sé liðinn, hefur gæzlan ekki enn svarað bréflega. Og ekki bólar á aðgerðum af hálfu stjórnvalda til að stöðva sóun gæzlunnar á fjármunum skattgreiðenda.
Þetta er óneitanlega hið furðulegasta mál. Sérfræðingar styðja sitt mál með svo sterkum rökum, að óyggjandi virðist. Yfirstjórn Landhelgisgæzlunnar virðist aðeins geta svarað með hliðstæðum útúrsnúningum og felast í svörum hennar við gagnrýni á kaupum annarrar stórrar gæzluflugvélar.
Hér dugar hvorki sérvizka né lúxus. Fyrirskipa þarf nú þegar svartolíu á Tý og Ægi og nota sparnaðinn til að kosta skiptiáhafnir á varðskipin og gæzluvélarnar í vfirvofvandi þorskastriði.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið