Svartasta skýrsla Hafrannsóknastofnunarinnar um ástand fiskistofna er komin út. Sjávarúfvegsráðherra kallar hana “gráu skýrsluna” af landskunnri ósvífni.
Svo kann þó að vera að orðaval ráðherra bendi til, að hann muni taka mark á skýrslunni. Það væru góð tíðindi, sem mundu afsaka rugl í orðavali. Þá ætti þorskstofninn nokkra möguleika á að lifa af.
Í skýrslunni er minnt á ógildingu ráðherrans á skyndilokun Hafrannsóknastofnunar á hafsvæðum í fyrra, er 40% af fjölda þorska var undir 58 sentimetrum. Nú er stofnunin enn harðari.
Hún leggur til skyndilokanir, ef 20% af fjölda þorska er undir 58 sentimetrum og undir 62 sentimetrum eftir 1. júlí. Þrengingin á hlutfallinu sýnir ört vaxandi ótta stofnunarinnar við hrun þorskstofnsins.
Í skýrslunni er minnt á, að í fyrra var ekki farið eftir tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar um 275 þúsund tonna hámarksþorskafla. Þá voru veidd 340 þúsund tonn.
Þetta hefnir sín í ár. Nú leggur stofnunin til, að ekki verið farið fram úr 270 þúsund tonna þorskveiði árið 1978. Hún tekur líka fram, að aflinn hefði mátt verða meiri í ár, ef ráðherra hefði haldið sér við 275 þúsund tonna afla í fyrra.
Í skýrslunni segir síðan: “Samkvæmt þeim aflatakmörkunum, sem hér er mælt með, mun hrygningarstofninn í ársbyrjun 1980 verða 400 þúsund tonn eða 120 þúsund tonnum stærri en ef ekkert yrði frekar að gert.”
Ennfremur: “Þrátt fyrir þessar friðunaraðgerðir er búizt við, að hrygningarstofninn minnki á ný árin 1981 og 1982, þegar lélegu árgangarnir frá 1974 og 1975 verða kynþroska….”
Loks: “….nauðsynlegt er að nota sterka árganginn frá 1976 til þess að byggja upp hrygningarstofninn….” Möguleikar á því virðast næsta tvísýnir eftir því sem segir á öðrum stað í skýrslunni:
“Lítill hrygningarstofn samsettur af tiltölulega fáum aldursflokkum kemur til hrygningar á takmörkuðu tímabili og veltur því á miklu, að umhverfisaðstæður séu hagstæðar einmitt þá.”
Með þessu segir Hafrannsóknastofnunin berlega, að framtíð þorskveiða við Ísland velti að verulegu leyti á því, hvort klak árgangsins frá 1976 muni heppnast, þegar þar að kemur.
Óbeit sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnarinnar á fiskifræðum hefur þannig leitt til þess, að þjóðin er upp á guð og lukkuna komin, jafnvel þótt farið sé eftir tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar.
Samt eru og hafa tillögurnar verið með þeim hætti, að útgerðarmenn hafa stutt þær. Eru útgerðarmenn þó sá hópur manna, sem mest þarf að blæða fyrir takmarkanir á aflamagni á líðandi stund.
Útgerðarmenn eru eins og fiskifræðingar að hugsa um lifibrauðið til langs tíma. Sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnin eru hins vegar einungis með það sjónarmið að komast fram yfir kosningar.
“Það lafir meðan ég lifi,” sagði Frakkakonungur.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið