Svart er hvítt og …

Greinar

Þegar menn þakka sér verk annarra, gera þeir það annaðhvort af vanþekkingu eða að yfirlögðu ráði. Síðara tilvlkið er oftaest merki um, að menn séu komnir í óbærilegaaðstöðu og telji sér öll vopn leyfileg í vörninni.

Í leiðara Vísis á föstudaginn þakkaði blaðið sér fyrir að hafa upplýst ávísanahringsmálið og látið almenning vita um, hversu alvarlegt málið væri. Ekki var samt tekið fram, að í fyrstu frétt Vísis um málið, sem birtist fyrr í sömu viku, voru ávísanasvikin talin hafa numið tveimur milljörðum króna á tveimur árum!

Dagblaðið hafði hins vegar fjallað um málið í fréttum í vikunni áður og meðal annars í fimm dálka frétt efst á forsíðu. Þar kom hins vegar ekki fram, að um neitt milljarðaævintýri væri að ræða, enda er málið nógu alvarlegt, þótt ekki sé verið að ýkja það.

Dagblaðið hafði raunar skrifað fréttir um þetta mál alveg frá því í maí í vor. Í einum saman maí voru birtar fjórar fréttir um málið, meðal annars um, að það væri í rannsókn í Seðlabankanum. Þá vildu starfsmenn Seðlabanka og Sakadóms ekki kannast við slíka rannsókn, en Dagblaðið taldi sig þá þegar hafa öruggar heimildir um, að rannsóknin væri byrjuð.

Dagblaðið hafði þannig skrifað fréttir um málið í þrjá og hálfan mánuð, áður en síðasta vika rann upp og önnur blöð fóru að birta fréttir um það.

Eins og oftar áður lét Vísir undirblað sitt, Alþýðublaðið, bíta höfuðið af skömminni. Þar stóð í síðustu viku á forsíðu, er fjallað var um málið: “Hitt er ekki síður athyglisvert, að þrátt fyrir leiðaraskrif Dagblaðsins um hlutverk þess blaðs, hefur það ekki heldur birt fréttir um málið, hvorki frjálsar, óháðar né aðrar. Hvað skyldi valda því hiki?”

Síðasta málsgreinin í tilvitnuninni, er sérstaklega athyglisverð. Hún er dæmigerð um þau vinnubrögð pólitísku sorpritanna, som Dagblaðið hefur stundum verið að benda á að undanförnu. Fyrst er því logið, að Dagblaðið, sem mest hafði skrifað um málið bæði fyrr og síðar, hafi ekkert skrifað um það. Síðan er dylgjað á óvenju grófan hátt út frá lyginni.

Vinnubrögð sem þessi hafa vitanlega lítil áhrif, þegar blöðin eru sama sem ekkert lesin. Það er alvarlegra, þegar útbreidd blöð taka þátt í slíku. Þá er örugglega verið að villa um fyrir þjóðinni. eins og um daginn, þegar Morgunblaðið tók undir það með Vísi. að Markús Örn Antonsson hefði átt hugmyndina að yfirtöku borgarinnar á barnaheimilum Sumargjafar. Tillagan var raunar frá borgarfulltrúa í allt öðrum stjórnmálaflokki.

Í nágrannalöndum okkar austan og vestan Atlantshafs væru vinnubrögð af því tagi, sem hér hefur verið lýst, alveg óhugsandi. Þar hafa pólitísku sorpritin nefnilega lagzt niður fyrir löngu og önnur og betri dagblöð hafa tekið við hlutverki þeirra.

Því fyrr sem slík þróun vrður hér á landi, þeim mun minni hætta er á, að vanþekking og röng þekking ráði úrslitum hér á landi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið