Hannibal Valdimarsson, formaður stjórnarskrárnefndar, sagði í viðtali við Dagblaðið á þriðjudaginn, að nefndin hefði lítið starfað um skeið. Tekur hann þar vægt til orða, því að nefndin hefur frá upphafi nær ekkert starfað. Heilu árin liðu án funda fyrst eftir að stjórnarskrárnefnd Hannibals komst á laggirnar á tíma vinstri stjórnarinnar síðari.
Enn virðist ýmislegt vera því til fyrirstöðu, að langþráð endurskoðun stjórnarskrárinnar verði að veruleika. Ráðsmaður Hannibals í Selárdal hefur veikzt og á nefndarformaðurinn því ekki heimangengt. Virðist búskapurinn í Selárdal ætla að verða þjóðinni örlagaríkur.
Merkilegt er, að hinum önnum kafna Selárdalsbónda skuli ekki hafa dottið í hug að fela formennskuna að minnsta kosti um tíma einhverjum öðrum, sem má vera að því að sinna þessu þjóðþrifamáli. En sennilega framkvæmir Hannibal svæfingar sínar með vitund og vilja leiðtoga þjóðarinnar, úr því að ekkert er rekið á eftir honum.
Hannibal upplýsti ennfremur í viðtalinu, að ekki væri hljómgrunnur í nefndinni fyrir einmenningskjördæmum. Hafa þó skoðanakannanir leitt í ljós, að með þjóðinni er útbreiddur áhugi á einmenningskjördæmum. En fulltrúum flokksvélanna í nefndinni þykir sjálfsagt líklegt, að einmenningskjördæmi mundu draga úr ofurvaldi flokksvélanna.
Þessar flokksvélar þrúga þjóðina á margan hátt og er þetta eitt dæmið. Við getum ekki fengið betri þingmenn, kosna beint í persónulegu kjöri, í stað núllanna í öruggum sætum framboðslistanna, af því að slík breyting hentar ekki flokksvélunum.
Hannibal þykir ekki tíðindum sæta, að nefnd ungra manna úr þremur stjórnmálaflokkum, Alþýðuflokknum, Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, hefur náð samstöðu um tillögur um persónulegt kjör alþingismanna. “Það er góðra gjalda vert, að unga fólkið myndar sér skoðanir”, segir Hannibal um þessar ágætu tillögur.
Samkvæmt tillögunum eiga flokksvélarnar ekki að geta troðið þægu börnunum sínum í örugg sæti, því að ekki er kosið eftir listum. Kjósendur eiga sjálfir að setja númer fyrir framan nöfn frambjóðendanna í þeirri röð, sem kjósendur, en ekki flokksvélarnar, vilja hafa þá. Og kjósendurnir geta meira að segja sett frambjóðendur annarra flokka inn í þessa röð, ef þeir vilja.
Því miður er áhugaleysi Hannibals um þessar tillögur líkast til dæmigert um áhugaleysi þingmanna almennt. Þeir eru skrautblóm flokksvélanna og hafa smám saman unnið sig upp eftir númeraröð framboðslistanna. Þeim er það sjálfsagt óbærileg tilhugsun, að skyndilega kæmi til sögunnar ný skipan, er gæti á einni nóttu gert alla þessa fyrirhöfn að engu.
Núverandi alþingismenn hafa þeirra hagsmuna að gæta, að kosningalögin verði ekki bætt. En Hannibal ætti ekki að þurfa að þjóna þessum hagsmunum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið