Sumir eru jafnari en aðrir

Greinar

Ef þú sem algert núll í þjóðfélaginu brýzt inn í verzlun og stelur 100.000 krónum, verður þú sennilega að endurgreiða þýfið og færð skilorðsbundinn dóm. Í annað skiptið lendirðu sennilega á Litla-Hrauni.

Ef þú ert hins vegar ráðherra og notar aðstöðu þína til að stela 124.000.000 krónum af ríkinu, endurgreiðir þú hvorki, né ferð á Litla-Hraun. Sennilega færðu fálkaorðuna.

Innkaupastofnun ríkisins er sá aðili í landinu, sem mesta reynslu hefur af útboðum framkvæmda. Gerð útboðanna og mat tilboðanna, sem inn berast, byggist á langri og verkfræðilegri reynslu af því, hvað hlutirnir kosta í raun og veru.

Vegna þessa er Innkaupastofnunin látin meta eignir, sem ríkið hyggst komast yfir. Það gerði hún líka, þegar máttarstólpar Sjálfstæðisflokksins heimtuðu, að ríkið keypti margbrunnið Víðishús á 259 milljónir króna.

Innkaupastofnunin skoðaði húsflakið hátt og lágt og gaf langa og ýtarlega skýrslu um ástand þess. Skýrsla þessi er samfelld hryllingssaga, svo sem fram hefur komið Í sumum dagblaðanna. Gert er ráð fyrir, að það kosti 380 milljónir að gera húsið nothæft.

Kjarni málsins er þó sá, að Innkaupastofnunin mat verðgildi hússins 135 milljónir króna. Þetta hundsaði fjármálaráðuneytið og ákvað að kaupa húsið fyrst á 220 milljónir og síðan á 259 milljónir. Þarna átti að hafa 124 milljónir króna af skattgreiðendum.

Að þessu myrkraverki stóðu fjármálaráðherra, forsætisráðherra og menntamálaráðherra. Málið var ekki borið undir ríkisstjórnina, enda reyndust bæði Halldór E. Sigurðsson og Gunnar Thoroddsen því andvígir, þegar þeir lásu um það í blöðunum.

Málið var að sjálfsögðu ekki kynnt almenningi. Hryllingssögu Innkaupastofnunar ríkisins var stungið undir stól og hefur hún síðan verið ríkisleyndarmál. Dagblaðinu og fleiri blöðum tókst þó að ná í eintök og fræða almenning um málið. En sú uppljóstrun er ekki landsfeðrunum að þakka.

Enginn ráðherra hefur 124 milljónir króna af ríkinu og skattgreiðendum af hreinni heimsku, þegar sérfræðingarnir eru búnir að vara hann við. Enginn ráðherra er svo vitlaus, að hann telji sig vita betur en Innkaupastofnun ríkisins um verðgildi Víðishússins.

Þótt sannanir liggi ekki á borðinu um þessar mundir, er augljóst, að pólitískt fjármálabrölt, en ekki heimska, liggur að baki. Eigandi Víðishússins er meðal helztu fjármálastólpa Sjálfstæðisflokksins.

Engin leið er að komast hjá hinni rökréttu ályktun, að hluti 124 milljón krónanna renni til leyndra kosningasjóða og að Framsóknarflokkurinn fái líka sitt vegna helmingaskiptareglunnar.

Svo virðist sem reiði almennings hafi knúið fram frestun á afgreiðslu. Samt er ekki mikil von, að hætt verði við, því að krumlur flokkanna verða einkar stjarfar, þegar þær kreppast um milljónir. Og enginn þarf að fara á Litla-Hraun, því að þetta eru fínu mennirnir í þjóðfélaginu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið