Styttist í sæludögum

Greinar

Ríkisstjórnin átti nýlega tiltölulega rólegan afmælisdag. Hún hélt upp á tveggja ára afmæli sitt með því að skipta á einum ráðherra. Þau ráðherraskipti styrkja stjórnina. Björn Jónsson hefur sem forseti Alþýðusambandsins stundum verið stjórninni óþægur, en sem ráðherra mun hann reyna að fá launþegasamtökin til að hlíta forskrift ríkisstjórnarinnar.

Bretar hafa séð svo um, að ríkisstjórnin á náðugri daga á tveggja ára afmælinu en oftast áður á ævinni. Þegar þeir sendu herskip sín inn í 50 mílna fiskveiðilögsöguna, þjöppuðu þeir íslennku þjóðinni saman í landhelgimálinu og ollu því, að önnur alvörumál þjóðarinnar féllu í skuggann. Mönnum er ekki eins tíðrætt um óstjórnina innanlands, þegar þeir eiga í baráttu við sameiginlegan andstæðing.

En jafnvel í landhelgismálinu hefur ríkisstjórnin ekki haldið á málunum sem skyldi. Að vísu hefur gott starf verið unnið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Að öðru leyti hefur áróðurinn út á við ekki verið nógu ákveðinn og kraftmikill. Við vekjum enga athygli á því, hvorki með kærum né með öðrum hætti, að brezku skipin við landið hlíta engum siglingareglum og að fundizt hefur gersamlega ólögleg varpa frá þýzkum togara.

Undirbúningur okkar fyrir hafréttaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna þyrfti að vera miklu umfangsmeiri. Við ættum að setja allan okkar kraft í þennan undirbúning, því að ráðstefnan er lykillinn að sigri okkar í landhelgisdeilunni. Og við hefðum átt að verja mál okkar fyrir alþjóðadómstólnum, þótt við samþykkum ekki, að hann skipti sér af málinu. Það var einskær þrjózka hjá ríkisstjórninni að senda ekki málflutningsmenn til Haag. Hún skaðaði þjóðina stórlega, einungis til að komast hjá því að gera stjórnarandstöðunni til geðs.

Ríkisstjórnin getur heldur ekki endalaust falið sig á bak við landhelgisdeiluna, þótt það hafi tekizt um nokkurra mánaða skeið. Gleðidagar tveggja ára afmælisins verða vafalítið skammvinnir. Bráðum sækir haustíð að með gömul og ný vandamál, sem ekki er hægt að fela að baki forgangs landhelgismálsins.

Bogi ríkisútgjalda hefur verið spenntur svo hátt, að hann brotnar i vetur, nema ný skattheimta komi til. Og er skattlagningin þó þegar orðin hrikaleg. Þetta er eitt af þremur alvarlegustu vandamálunum, sem þjóðin stendur nú andspænis, og er ekki síður alvarlegt en landhelgismálið sjálft.

Þriðja stóra vandamálið er ævintýramennskan í örggismálum þjóðarinnar. Boðberar varnarleysins notfæra sér út í yztu æsar tilfinningahitann út af landhelgismálinu og reyna að magna upp andúð á varnarliðinu og Atlantshafsbandalaginu. Ríkisstjórnin dansar að meira eða minna leyti eftir þessari fiðlu, þótt sumir ráðherrarnir geri það gegn betri vitund. Þessi draugur verður varla kveðinn niður án þess að það kosti gífurleg átök í ríkisstjórninni.

Það fer því fljótlega að styttast í sæludögum stjórnarinnar.

Jónas Kristjánsson

Vísir