Stundarfriður

Greinar

Stundarfriður er betri en enginn friður. Þess vegna er ástæða til að fagna hinum nýju kjarasamningum, sem samninganefndir launþega og vinnuveitenda gerðu með sér aðfaranótt skírdags.

Með þessum samningum ætti að vera tryggt, að hjól atvinnulífsins haldi áfram að snúast enn um sinn, hvað sem síðar verður. Við höfum komizt hjá því að bæta gráu ofan á svart með því að komast hjá vinnudeilum í sjálfri efnahagskreppunni.

Að öðru leyti er samkomulagið stórlega gallað. Í fyrsta lagi er tveggja mánaða samningur varla nokkur samningur. 0g í öðru lagi felur samkomulagið í sér fráhvarf frá láglaunabótastefnunni, sem mjög hefur verið hampað að undanförnu.

Samkvæmt samningunum eiga 4.900 krónur að leggjast ofan á mánaðarleg dagvinnulaun, sem eru innan við 69.000 krónur. og á mánaðarlaun á bilinu 69.000-73.900 krónur verða 73.900 krónur samkvæmt samkomulaginu.

Þetta eru kallaðar láglannabætur. En mörkin eru svo hátt sett, að nafngiftin er nánast formsatriði eitt. Allur þorri launþega hefur dagvinnulaun, sem eru innan við þessi mörk. Allur þorri launþega mun njóta þessarar uppbótar, sem þar að auki leggst líka á eftirvinnu.

Æskilegra hefði verið að hafa uppbótina minni á launum hinna betur settu til þess að geta haft hana hærri hjá þeim, sem verst eru settir og næstir því að eiga ekki fyrir brýnustu nauðsynjum. En miðlungs- og hátekjumennirnir réðu ferðinni í samningunum og því fór sem fór.

Hinn megingallinn felst í óhæfilega stuttum samningstíma. Samkomulagið gildir aðeins í tvo mánuði til 1. júní, og rennur þá sjálfkrafa út. Það gefur því aðeins gálgafrest, jafnvel þótt samningamenn kunni að vera sammála um að draga gerð nýs samkomulags fram á haust.

Að vísu mun friður til hausts gefa báðum aðilum næði til að fylgjast með þróun efnahagsmála á næstu mánuðum og haga stefnunni í samræmi við þá þróun. Í því felst ávinningur, sem vissulega er takmarkaður, en ber þó ekki að lasta.

Allur þorri launa mun nú hækka um 8,2-13,1% vegna hinna svonefndu láglaunabóta. Til viðbótar koma svo skattalækkanir hjá lágtekju- og miðlungstekjufólki og aðrar boðaðar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar, sem forustumenn launþega meta á við 5% kjarabætur og forustumenn vinnuveitenda meta á við 6% kjarabætur.

Að þessu samanlögðu nema kjarabæturnar 13-19% hjá öllum þorra launþega. Í þessu felast verulegar bætur fyrir óbærilega dýrtíð undanfarinna mánaða. Sé það mat vinnuveitenda, að atvinnuvegirnir standist þetta, er góð lausn fundin á slæmu ástandi.

Ríkið hyggst fjármagna þátttöku sína í þessari lausn með því að skera niður 3,5 milljarða á fjárlögum. Heyrzt hefur, að sumir þingmenn telji þetta ekki framkvæmanlegt. Þess vegna er nú nauðsynlegt, að ábyrgir þingmenn láti slíkar úrtölur sem vind um eyru þjóta og taki þátt í þeim niðurskurði, sem allir sjá, að er óhjákvæmilegur.

Þjóðin verður nú að nota friðinn vel, því að hann er aðeins stundarfriður.

Jónas Kristjánsson

Vísir