Stríðið gegn “afnámi bænda”

Greinar

Loksins hafa dagblöðin Morgunblaðið og Tíminn svarizt í fóstbræðralag í sameiginlegu hugsjónamáli. Baráttumál þeirra er andstaða við, að landbúnaður verði lagður niður á Íslandi. Beina þau skeytum sínum einkum að Vísi sem hinum sameiginlega óvini. Er svo orðin úr þessu hin skoplegasta styrjöld.

Svo skemmtilega vill til, að í öllum fjórum leiðurum Vísis á þessum vetri um landbúnaðarstefnu hefur aldrei verið lagt til, að hin heilaga kýr, landbúnaðurinn, verði lögð niður.Hins vegar sagði Vísir í lok fyrsta leiðarans:

“Það er hrollvekjandi, að ástandið í verðlagsmálum landsins skuli vera orðið þannig, að unnt er að setja upp reikningsdæmi um, að þjóðin geti hagnazt á að leggja landbúnaðinn niður á einu bretti og fara að flytja inn landbúnaðarafurðir. Hér er ekki ætlunin að hvetja til slíks, heldur reyna að hvetja menn til umhugsunar um stórbrotið vandamál.”.

Að sjálfsögðu létu æðstuprestar trúarinnar á heilögu kúna ekki hvetja sig til svo jarðbundinna hugleiðinga, heldur fylltust þeirri pólitísku sefasýki, sem einkennir íslenzk leiðaraskrif í of miklum mæli. Vísir fór því sjálfur að reyna að finna leiðir, sem gætu létt þjóðfélaginu byrðar landbúnaðarstefnu undanfarinna áratuga. Blaðið sagði m.a.:

“Bændum, sem vilja bregða búi á erfiðum jörðum, þarf að veita myndarlega aðstoð til að festa rætur í þéttbýlinu. Afnema þarf smám saman niðurgreiðslurnar, svo að söluverð landbúnaðarafurða sé í samræmi við tilkostnaðinn. Beina þarf styrkjakerfi ríkisins til þeirra héraða, sem bezt eru til landbúnaðar fallin. Og hefja þarf innflutning á þeim landbúnaðarvörum, sem óhagstæðast er að framleiða hér heima.”

Þetta er nú allt bitið í fallöxi Vísis. Það verður að hryggja umbjóðendur heilögu kýrinnar, að tillögur Vísis eru ekki róttækari en þetta, að minnsta kosti ekki enn.

Fóstbræðrablöðin tvö vitna einnig rangt í Vísi, er þau segja blaðið halda því fram, að niðurgreiðslur séu til komnar vegna landbúnaðarins. Um þetta sagði Vísir strax í byrjun fyrsta leiðarans:

“Rétt er að benda á, að niðurgreiðslurnar eru ekki beinlínis í þágu bænda, heldur aðferð til að halda vísitölunni í skefjum. En þær skekkja líka verðlagið og valda því, að neytendur gera sér ekki grein fyrir því, hversu dýrar landbúnaðarafurðir eru í raun og veru.”

Hins vegar staðfesta blöð heilögu kýrinnar upphafsorð síðasta leiðara Vísis um landbúnaðarmál, en þar segir:

“Reynslan sýnir, að erfitt er að hvetja til umræðu um fjármál og stöðu landbúnaðarins hér á landi. Úr slíkum tilraunum verður sjaldan annað en eintal, því að talnarunur bíta ekki á þá menn, sem telja landbúnaðinn vera yfir hagfræði hafinn.”

Enda forðast blöðin tvö að ræða þá staðreynd, að ríkið ætlar samkvæmt fjárlagafrumvarpi að verja fimm milljörðum króna á næsta ári til beinna framlaga til landbúnaðarins, auk 800 milljóna í óbein framlög.

Þessar tölur frumvarpsins eru kjarni málsins. Það eru þær, sem sýna svart á hvítu, að fjármál landbúnaðarins eru komin út í meiri ógöngur en svo, að þau verði varin með neinum rökum.

Jónas Kristjánsson

Vísir