Stöðvun Kröfluvirkjunar?

Greinar

Samkvæmt nýjustu viðvörunum jarðvísindamanna er mikil og vaxandi goshætta á Kröflusvæðinu við Mývatn. Eysteinn Tryggvason og nokkrir fleiri jarðvísindamenn telja, að á þriggja kílómetra dýpi undir Víti renni hraunkvika upp úr sprungu, breiði úr sér neðanjarðar og lyfti landinu.

Áætla þeir, að þarna hafi runnið upp um 370 þúsund rúmmetrar á dag síðan í marz.

Þessir jarðvísindamenn telja, að stórgos geti orðið á þessu svæði, ef hraunkvikan heldur áfram að streyma. Búast þeir við, samkvæmt fyrri reynslu, að gosið geti orðið langvinnt en slitrótt. Þeir reikna með, að gosið komi annaðhvort upp milli Leirhnúks og Bjarnarflags eða rétt norðan stöðvarhúss orkuversins við Kröflu.

Jarðvísindamennirnir treysta sér ekki til að spá, hvenær gjósi á þessum stað. Þeir benda þó á, að á fyrstu mánuóum næsta árs muni landið að óbreyttri þróun hafa risið að því marki, sem var fyrir smágosið 20. desember 1975. Og landris umfram fyrri landhæð er jafnan talið merki um yfirvofandi goshættu.

Ef þessi spá reynist rétt, eiga mönnum að vera ljósar afleiðingarnar. Annaðhvort gýs norðan Bjarnarflags og þá eru Kísiliðjan og Reykjahlíðarbyggðin í stórhættu. Eða þá gýs í botni Hlíðardals moð næstum öruggri eyðileggingu orkuversins við Kröflu.

Eina bjarta hliinn á viðvörunum jarðvísindamannanna er sú, að þeir telja, að vaktmaður við jarðskjálftamæla geti varað við gosinu með hálfrar til tveggja stunda fyrirvara, svo að mannslíf eiga ekki beinlínis að vera í hættu.

Greinargerð jarðvísindamannanna bendir til þess, að nauðsynlegt sé að hraða sem mest byggingu varnargarðs milli Bjarnarflags og Reykjahlíðarbyggðar til að beina hraunstraumnum frá byggðinni. Og hún bendir líka til þess, að ekki verði unnt að hindra, að annaðhvort eyðist Kísiliðjan eða orkuverið við Kröflu, ef til goss kemur.

Þetta þýðir að endurskoða verður frekari framkvæmdir við Kröflu. Hingað til hefur vaxandi óhugur sérfræðinga út af Kröfluvirkjun ekki verið næg ástæða til að hætta við framkvæmdir. En þessi síðasta greinargerð nægir til þess, að sterklega hlýtur að koma til greina að hætta Í bili við íramkvæmdir og flytja bæðói vinnutæki og dýrmætustu hluta orkuversins á brott.

Auðvitað er afleitt að þurfa að gera slíkt, þegar fyrsti áfangi orkuversins er á lokastigi og allt Norðurland skortir rafmagn á komandi vetri. Sumir vilja sjálfsagt bíta á jaxlinn og halda áfram af fullum krafti. Aðrir munu eftir lestur greinargerðarinnar telja slíkt óðs manns æði. þar sem hálfur skaði sé betri en allur.

Nú er kominn tími til, að fróðustu menn á öllum þeim sviðum, sem málið snertir, komi saman i skyndingu til að vega og meta ástandið. Ennfremur væri æskilegt, að þeir yrðu látnir ráða því, hvaða stefna verður nú tekin. Síðan verði tekið til óspildltra málanna á grundvelli þeirrar niðurstöðu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið