Stöðvum Alusuisse

Greinar

Uppljóstrunin um útþensluáform Alusuisse á Íslandi er gott dæmi um, hve vel fjölmiðlar verða að vera á verði gagnvart tilraunum til að fara á bak við kjósendur í landinu. Í næstum fjögur ár hefur tekizt að halda sumum atriðum þessa alvarlega máls leyndum fyrir almenningi.

Gunnar Thoroddsen iðnaðarráðherra sagði í viðtali við Dagblaðið í fyrradag, að tillögur Alusuisse um víðtæka orkuyfirtöku hefðu engar undirtektir fengið hjá íslenzkum stjórnvöldum. Þessi afdráttarlausa yfirlýsing er góð svo langt sem hún nær, en nægir ekki eftir hina löngu þögn.

Það hefur raunar komið fram í fréttum Dagblaðsins, að ákveðin atriði útþensluáforma Alusuisse hafa verið til umræðu, svo sem þátttaka í orkurannsóknum á Austurlandi og athugun á byggingu súrálvers. Og frá upphafi hefur ekki farið leynt, að álverið í Straumsvík er ekki bara hannað fyrir tvo kerskála, sem þar eru, heldur fyrir fjóra kerskála alls.

Óhjákvæmilegt er að lýsa yfir megnri óánægju með þá leynd, sem hvílt hefur yfir áformum Alusuisse. Ríkisstjórnin hefur enga siðferðilega heimild til að halda slíku leyndu fyrir almenningi. Allt of mikið er þegar búið að vinna að aukinni vangetu kjósenda til að taka skynsamlega afstöðu til mála, þótt svona mál bætist ekki við.

Ef höfundar slíkra áforma krefjast leyndar, er eina rétta svar ríkisstjórnarinnar að neita að taka við leyniskjölunum. Þannig firrir hún sig ábyrgð af því að hafa farið á bak við kjósendur.

Þar að auki eru útþensluáformin efnislega ákaflega varasöm, enda hefur nokkur hluti þjóðarinnar rökstuddan grun um, að forustumenn Alusuisse séu sérfræðingar í að gabba sveitamanninn, það er Íslendinginn.

Mjög hefur verið deilt um, hvort Íslendingar borgi með rafmagninu til álvers Alusuisse í Straumsvík eða ekki. Er orðin brýn nauðsyn, að á því fari fram óhlutdræg og ópólitísk rannsókn, þar sem annars vegar sé tekið tillit til hagræðis okkar af byggingu stórra orkuvera og hins vegar óhagræðis okkar af byggingu margra orkuvera.

Með þessu er átt við, að álverið auðveldaði á sínum tíma byggingu orkuversins við Búrfell, en jafnframt mundi álversleysi nú gera byggingu orkuversins við Hrauneyjarfoss óþarfa á þessu stigi málsins.

Tregða álversins við að koma upp hreinsibúnaði er ekki til þess fallin að vekja traust manna. Sama máli gegnir um þá sérkennilegu ákvörðun Alusuisse að bjóða mönnum úr hópi viðsemjenda sinna sæti í stjórn álversins í Straumsvík að samningum loknum.

Að óbreyttum ýmsum slíkum grunsemdum er stefna Dagblaðsins ljós. Ekki verði stofnuð nein ævintýrafélög með Alusuisse um yfirtöku meira vatnsafls í landinu. Alusuisse verði ekki leyfð þátttaka í neinum virkjunarrannsóknum. Ekki verði rætt við Alusuisse um byggingu súrálvers né annarra verksmiðja. Ekki verði ljáð máls á stækkun álversins í Straumsvík fram yfir tvo kerskála.

Alusuisse hefur tekizt að ná af okkur rafmagni á ótrúlega lágu verði, hvort sem það er yfir eða undir kostnaðarverði. Látum það ekki komast upp með meira af slíku.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið