Stjórnlaus hugulsemi

Greinar

Ríkisstjórnin hyggst ná 6800 milljón krónum á ári af lífeyrissjóðunum. Hún hefur lagt fram frumvarp að lögum, þar sem lífeyrissjóðirnir eru skyldaðir til að verja á ári hverju 40% af ráðstöfunarfé sínu til kaupa á verðtryggðum skuldabréfum opinberra fjárfestingarlánasjóða.

Tíminn hafði á laugardaginn eftir forsætisráðherra, að tilgangurinn með lagasetningunni væri sá að tryggja ávöxtun fjármagns lífeyrissjóðanna. Samkvæmt þessu er ríkisstjórnin af einskærri hugulsemi að gæta hagsmuna aðila, sem ekki kann fótum sínum forráð.

Spurningin er nú sú, hvort ríkisstjórnin geti ekki látið sér detta í hug að sýna hugulsemi á fleiri slíkum sviðum. Í þjóðfélaginu er fullt af stofnunum og fyrirtækjum. Óvíst er, að forráðamenn þessara stofnana og fyrirtækja kunni fremur með fé að fara en forráðamenn lífeyrissjóðanna.

Næst getur Geir Hallgrímsson lagt fram frumvarp til laga, þar sem aðrir sjóðir en lífeyrissjóðir, félög, stofnanir og fyrirtæki eru skylduð til að verja föstu hlutfalli af tekjum sínum til kaupa á verðtryggðum skuldabréfum hins opinbera. Geir gæti bent á, að þetta mundi styrkja fjárhag viðkomandi aðila með því að tryggja beztu ávöxtum fjármagns þeirra.

Geir Hallgrímsson er ekki einn um hugulsemina. Í Morgunblaðinu á sunnudaginn er meðal annars þetta haft eftir Guðmundi H. Garðarssyni alþingismanni: ” … hlýtur sú spurning að vakna, hvort það sé ekki skylda stjórnvalda að setja almennar reglur um stjórnun og meðferð þessa fjármagns. Það er gert í bankakerfinu.”

Við ummæli Guðmundar hlýtur önnur spurning að vakna: Hvað er langt frá skyldu stjórnvalda gagnvart lífeyrissjóðunum yfir í skyldu þeirra gagnvart öðrum stofnunum og fyrirtækjum í landinu, sem hafa fjármuni með höndum?

Rétt er að taka fram, ef það skyldi koma einhverjum á óvart, að bæði Geir og Guðmundur eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þess flokks, sem á síðustu árum hefur einna mest stuðlað að stjórnlausri hugulsemi ríkisins í stóru og smáu. Það er varla, að maður þori að benda þeim félögum á, að sitthvað kunni að vera athugavert við meðferð fjármuna á íslenzkum heimilum.

En þetta hafa þeir í rauninni þegar séð. Með frumvarpi til laga um skyldusparnað hafa þeir af einskærri hugulsemi gætt hagsmuna þeirra fjölskyldna, sem hafa of mikið fé handa milli. Nú á að tryggja beztu ávöxtun þessa fjármagns með því að lána það ríkinu á verðtryggðan hátt.

Hugarfarið að baki þessari hugulsemi er einkar athyglisvert. Stjórnmálamenn hafa tilhneigingu til að líkjast hver öðrum, hvort sem þeir búa á bökkum Volgu eða Elliðaánna.

Ekki kemur á óvart, að ábyrgðarmenn fjármálasúpu ríkisins skuli hafa öll spjót úti í peningaleit, sem afkomendur okkar eiga síðan að endurgreiða. Hitt er athyglisverðara hvað þeir geta látið sér detta í hug, þegar þeir telja sig þurfa að fegra gerðir sínar á þessu sviði.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið