Nú ríður á, að sem flestir styðji við bak ríkisstjórnarinnar í erfiðum og umfangsmiklum björgunaraðgerðum hennar. Nú ríður á, að menn láti ekki tryllast af þeim, sem eru að reyna að mikla lífskjaraskerðinguna í augum almennings
Þjóðin er að komast úr miðri straumiðunni. Með gengislækkuninni var lagður grundvöllur að því, að hjól efnahagslífsins gætu snúizt í rétta átt. Eftir eru ýmsar hliðarráðstafanir, svo og kjarasamningar, sem ráða úrslitum um, hvort takast þær björgunaraðgerðir, sem hafa farið vel af stað.
Lykilatriði efnahagslífsins um þessar mundir eru þrjú og má ekki milli sjá, hvert þeirra er mikilvægast. Í fyrsta lagi þarf að mynda gjaldeyrisvarasjóð á nýjan leik. Í öðru lagi þarf að tryggja afkomu atvinnuveganna. Og í þriðja lagi þarf að hindra atvinnuleysi í landinu.
Gengislækkunin hefur þann kost, að hún er lykill að öllum þremur atriðunum í senn. Hún eykur samkeppnishæfni íslenzkra atvinnuvega gagnvart útlendum og hefur á þann hátt hagstæð áhrif á afkomu þeirra, atvinnuöryggið og gjaldeyrisviðskiptin.
En gengislækkunin dugir ekki ein. Annars vegar þurfa að fylgja henni hliðaraðgerðir, er geta dregið úr horfunum á, að þjóðin lendi enn einu sinni í þeim vítahring, sem leiðir til nýrrar kollsteypu og nýrrar gengislækkunar. Hins vegar þurfa að fylgja henni hliðaraðgerðir, sem draga úr kjaraskerðingu hinna verst settu í þjóðfélaginu.
Ríkisstjórnin er að undirbúa kerfisbreytingu í verðlagsmálum og millifærslum sjávarútvegsins, sem á að skera burt meinsemdir, er hafa grafið þar um sig árum saman. Þessi uppskurður miðar að því, að rekstur sjávarútvegsins komist aftur á heilbrigðan áhættugrundvöll.
Því miður eru engar líkur á, að stjórnarflokkarnir geti né vilji framkvæma neinn uppskurð á spilltu landbúnaðarkerfi. Við losnum því ekki við hinar illræmdu útflutningsuppbætur að sinni.
Hins vegar getur og vill ríkisstjórnin efna til umtalsverðs sparnaðar í embættismannabákninu, sem er orðið stærra en svo, að þjóðin fái borið. Verða rekstrarútgjöld skorin niður eftir mætti og mun árangurinn líta dagsins ljós eftir nokkra daga.
Þar á ofan hyggst ríkisstjórnin draga saman seglin og fresta framkvæmdum í eitt ár, bæði til að spara skattpeninga borgaranna og til að beina starfskröftum þjóðarinnar til atvinnuveganna. Þessi frestun verður mörgum sársaukafull, en er nauðsynleg, af því að ríkisgeirinn hefur á undanförnum árum þanizt út yfir allan þjófabálk.
Loks hyggst ríkisstjórnin ráðast gegn hinu sjálfvirka vísitölukerfi, sem ríkir á mörgum sviðum efnahagslífsins og gerir stjórn þess ókleifa. Þetta er ein mikilvægasta aðgerðin til að rjúfa vítahring verðbólgunnar í landinu.
Til að milda áhrif gengislækkunarinnar hafa vinnuveitendur boðið fram 3.800 króna láglaunabætur og ríkisstjórnin boðið hliðstæða hækkun ellilífeyris og örorkubóta, svo og skattalækkun á láglaunafólki, er jafngildi 2-7% launahækkun.
Þegar forustumenn Alþýðusambandsins tala svo um 50-60% launahækkun, feta þeir vitandi vits í spor Nerós og spila á fiðlu, meðan Róm brennur í eldi vinnudeilna og atvinnuleysis.
Jónas Kristjánsson
Vísir