Bæði í Alþýðuflokknum og Alþýðubandalaginu gera sumir forustumenn sér ljóst, að vextir og verðbólga þurfa að halda jafnvægi sín á milli. Samt er ríkisstjórn með aðild þessara flokka einmitt í þann veginn að auka misræmi vaxta og verðbólgu.
Gæfuleysi ríkisstjórnarinnar á þessu sviði stafar sumpart frá guðföður hennar, Lúðvík Jósepssyni, sem hefur lága vexti á heilanum vegna tengsla sinna við gróðaöfl í útgerð og fiskvinnslu á Neskaupstað.
Fyrir réttri viku birtist í Þjóðviljanum leiðari gegn jafnvægi vaxta og verðbólgu. Aldrei þessu vant var leiðarinn ekki merktur höfundi. Má líta svo á, að þar hafi Lúðvík verið á ferð, annaðhvort beint eða óbeint eða með búktali.Gæfuleysið stafar einnig af því, að skilningur á efnahagsmálum hrekkur af Framsóknarflokknum eins og vatn af gæs. Áratugum saman hefur sá flokkur á óútskýranlegan hátt hneigzt að rangri stefnu í hverjum einasta þætti efnahagsmála.
Í þriðja lagi stafar gæfuleysi ríkisstjórnarinnar af undirlægjuhætti ráðherra Alþýðuflokksins í ríkisstjórninni. Það er eins og þeir séu haldnir trylltri sjálfseyðingarhvöt fyrir bönd flokksins, því að oftast stangast gerðir þeirra á við kosningastefnu flokksins.
Þáttur í kosningasigri Alþýðuflokksins í sumar var hin eindregna áherzla, sem hugmyndafræðingar flokksins lögðu á svonefnda raunvexti, sem eru vextir í samræmi við verðbólgu. Þeir röktu réttilega töluverðan hluta íslenzkrar fjármála- og stjórnmálaspillingar til of lágra vaxta.
Fólk trúði þessu og margir kusu Alþýðuflokkinn. Ráðherrar flokksins eru nú í þann mund að svíkja þetta fólk á sama hátt og þeir hafa svikið kjósendur sína á ýmsum öðrum sviðum. Virðist svo sem þeir stefni markvisst að því að slátra flokki sínum í næstu kosningum.
Magnús Kjartansson var til skamms tíma helzti hugmyndafræðingur Alþýðubandalagsins. Á þriðjudaginn skrifaði hann í Þjóðviljann grein um nauðsyn samræmis milli vaxta og verðbólgu. Þar gerði hann stólpagrín að Lúðvík Jósepssyni og líkti honum við páfann í Róm.
Magnús er sömu skoðunar og kosningagreinahöfundar Alþýðuflokksins. Það er raunar sú skoðun, sem Dagblaðið hefur haldið fram frá upphafi. Hún er sú, að stjórnmálamennirnir, sem stjórna lánastofnunum, séu að stela frá fátækum til að gefa ríkum.
Magnús segir réttilega: “Leiðin til þess að komast yfir fjármuni á Íslandi er að skulda sem mesta fjármuni. Því er eftirsóknin eftir gróða á Íslandi eftirsókn í lánsfé.”
Stjórnmálamennirnir eru yfirleitt að þykjast, þegar þeir kvarta um verðbólgu. Undir niðri fagna þeir henni ákaft og vilja hafa hana sem mesta. Hún gefur þeim nefnilega færi á að gerast skömmtunarstjórar og ákveða, hverjir eigi að vera ríkir og með hvaða skilyrðum.
Ef menn skilja þetta samhengi, skilja þeir líka hina samtvinnuðu spillingu íslenzkra fjármála og stjórnmála. Sú spilling rýrnar ekki, heldur eykst, unz vextir verða samræmdir verðbólgu og stjórnmálamenn víkja úr skömmtunarhlutverkinu.
Slík breyting gerist ekki á valdaskeiði núverandi ríkisstjórnar. Allt bendir til þess, að hún sé staðráðin í að magna spillinguna með auknu misræmi vaxta og verðbólgu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið