Þríklofin ríkisstjórn þriggja flokka mætir nú þríklofinni “stjórnarandstöðu” eins flokks. Orðið stjórnarandstaða þarf að vera innan gæsalappa því að óvíst er, að Sjálfstæðisflokkurinn geti sinnt henni að marki vegna ágreinings í eigin röðum.
Í síðustu viku steig ekki einu sinni svartur reykur upp af kardínálasamkomum flokksins í þingflokksherbergi hans í alþingishúsinu. Málið, sem var svo viðkvæmt, að ekki mátti kjósa um það, var, hvort Gunnar Thoroddsen skyldi áfram vera formaður þingflokksins.
Aðförinni að Gunnari stjórnuðu Ragnhildur Helgadóttir og Matthías Á. Mathiesen, helztu bardagamenn hins svonefnda “flokkseigendafélags”, sem hefur eflzt í sumum stofnunum Sjálfstæðisflokksins að undanförnu.
Þessi deild flokksins náði m.a. þeim árangri á þingi ungra flokksmanna á Þingvöllum, að samþykkt var tillaga um sameinaða kosningu formanns og varaformanns flokksins. Sú tillaga er liður í tilraunum til að láta Gunnar víkja fyrir Ragnhildi í stöðu varaformanns flokksins.
Ekki gekk eins vel í þingflokknum í síðustu viku. Sumir fylgismenn flokkseigendafélagsins hafa fallið af þingi og nýir þingmenn flokksins hafa fæstir fengizt til að taka þátt í valdabaráttu hins athafnasama félags.
Í ljós kom, að helmingur þingflokksins vildi hafa Gunnar áfram sem þingflokksformann. Öll síðasta vika fór í að reyna að rjúfa skörð í þennan múr umhverfis Gunnar. Þetta tókst ekki og var atkvæðagreiðslum sífellt frestað.
Aðförin að Albert Guðmundssyni í þingflokknum gekk mun betur. Hann féll í atkvæðagreiðslum innan flokksins um sæti í utanríkismálanefnd og fjárhags- og viðskiptanefnd. Þetta er mjög óvenjulegt, því að nær alltaf hefur verið samkomulag í þingflokknum um skipan manna í nefndir.
Niðurstaðan sýnir, að Albert er tiltölulega einangraður í þingflokknum. Þar er allt annað uppi á teningnum en í hverfasamtökum og öðrum félögum sjálfstæðismanna í Reykjavík, þar sem Albert á mjög traust fylgi.
Flokkseigendafélagið vill losna við Albert úr flokknum, því að hann rekst illa og lætur ekki segja sér fyrir verkum. Fara þær hugmyndir saman við hugmyndir ýmissa hópa, svo sem aronista og væntanlegs skattgreiðendafélags, sem telja að flokkurinn taki ekki mark á flokksmönnum og eru að leita að foringja á borð við Albert.
Sennilega verður hvorugum að ósk sinni. Albert er orðinn of rótgróinn í flokknum og of tryggur honum til að láta til skarar skríða. Flokkurinn klofnar því ekki hans vegna. En spennan heldur áfram að magnast.
Um skeið töldu menn, að þríklofningurinn milli Geirs, Gunnars og Alberts væri að gróa. Nú hefur hins vegar komið í ljós að stuðningsmenn Geirs sætta sig margir hverjir ekki við, að neinir skyggi á veldi Geirs í flokknum.
Þess vegna hefur flokkseigendafélagið blásið til bardaga þeirra, sem hér hefur verið lýst. Ekki er líklegt, að atlögurnar verði til að þjappa liðinu að baki Geirs, þótt árangur náist á takmörkuðum sviðum. Hins vegar verður Sjálfstæðisflokkurinn á meðan að mestu stikkfrí í landsmálunum.
Enda er þetta ástand eina sólarglætan í hugum stjórnarsinna um þessar mundir. Þegar óveðursskýin hrannast upp umhverfis ríkisstjórnina, finnst henni ekki amalegt að hafa stjórnarandstöðuna í molum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið