Við skulum strax gera okkur grein fyrir og sætta okkur við, að norska ríkisstjórnin hyggst halda áfram loðnuveiðum við Jan Mayen eftir að 90.000 tonn hafa náðst.
Þessa aflatölu settu Norðmenn fram sem sykur í skyndisókn, þegar þeir ætluðu að gabba íslenzka stjórnmálamenn til að samþykkja 200 mílna efnahagslögsögu umhverfis Jan Mayen.
Þeim hefur ekki lánast að ginna okkur með Rússagrýlu. Þeim mun heldur ekki takast að sannfæra okkur um, að ráðherra, er getur fyrirskipað upphafsdag veiða, geti ekki líka tilkynnt lokadag þeirra.
Í skyndisókninni höfðu Norðmenn Trójuhest í herbúðum Íslendinga. Þeir höfðu skjólstæðing, sem greiddi þeim vel fyrir peningagjafir fyrri ára. En við höfum áttað okkur á þessum vanda.
Í heilbrigðum þjóðfélögum væri talið útilokað að stjórnmálaflokkur, sem skuldar erlendum systurflokki gjafir, skuli stjórna viðræðum við ríkisstjórn þessa systurflokks.
Hvorki Benedikt Gröndal né Kjartan Jóhannsson hafa sagt sig frá þessum markalausu samningaviðræðum. Það eitt gefur markverða innsýn í hugarheim gjörspilltra stjórnmálamanna.
Norðmenn eiga í margþættu landhelgisstríði við Rússa út af Svalbarði. Sá biti er þeim nógur í hálsi að sinni. Við getum beitt sömu röksemdum gagnvart Jan Mayen og þeir beita gagnvart Svalbarði.
Svalbarð er eyja á landgrunni Noregs. Það finnst Norðmönnum vera ákaflega þægileg röksemd gagnvart Rússum. Þeim finnst hins vegar skrítíð, að Íslendingar skuli leyfa sér að beita sömu röksemd i Jan Mayen deilu.
Enn eiga Norðmenn bandamenn hér á landi. Alla þá, sem sjá eftir loðnunni við Jan Mayen. Þessa Trójuhesta mun ríkisstjórn Noregs notfæra sér án miskunnar á næstu dögum og vikum.
Vinnubrögðin minna á mafíuna gömlu, sem gerði tilboð, er menn gátu ekki hafnað. En það verður enginn maður ríkur og engin þjóð rík á því að taka slíkum mafíuboðum. Til langs tíma er betra að standa uppréttur, þótt það kosti eitthvað.
Dagblaðið hefur með semingi lýst stuðningi við sáttatillögur Matthíasar Bjarnasonar og Ólafs Ragnars Grímssonar. Þær eru sanngjarnar gagnvart Norð- mönnum. Hins vegar eru þær tæpast nógu skynsamlegar i stöðunni.
Eitt er, hver verður niðurstaðan í deilunni út af Jan Mayen. Annað er, hverjum herbrögðum við beitum í þessari deilu. Í prútti þykir lítt hæfa að bjóða strax fram það, sem maður getur fallizt á.
Skuld Alþýðublaðsins við norskan góðvildarflokk er orðin Íslendingum nokkuð dýr. Hún gerði Benedikt Gröndal kleift að spila hálfu málinu í hendur norskra jafnaðarmanna.
Vegna einleiks Benedikts Gröndal og Kjartans Jóhannssonar eigum við erfitt með að átta okkur á rétti okkar. Við erum of háðir norskum upplýsingum um það mál.
Ein staðreyndin er sú, að Norðmenn eiga ekki Jan Mayen, hvað þá efnahagslögsögu umhverfis eyna. Hin staðreyndin er sú, að Jan Mayen er á íslenzka landgrunninu. Við skulum negla hvort tveggja fast. Við eigum ekki að flýta okkur, þótt það kosti loðnu.
Við eigum ekki að sníkja nýjar samningaviðræður við Norðmenn. Með slíkum vinnubrögðum náum við ekki langt.
Við náum þá fyrst langt, er við leggjum niður norskar hugmyndir um réttarstöðu okkar í málinu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið