Stífla Ingólfs hefnir sín

Greinar

Jörðum í ábúð á Íslandi hefur fækkað tvöfalt til þrefalt hægar en annars staðar á Norðurlöndum. Þetta er samkvæmt tölum úr Árbók landbúnaðarins, sem Reynir Hugason verkfræðingur fjallaði um í kjallaragrein í Dagblaðinu fyrir skömmu.

Árin 1960-1975 fækkaði jörðum í ábúð um 700 eða úr 5100 í 4400. Þetta er 14% samdráttur. Á sama tíma fækkaði jörðum í ábúð um 30% í Danmörku og Noregi og 43% í Svíþjóð.

Nú framleiða hér 4400 bændur 15 þúsund tonn af kindakjöti og 120 þúsund tonn af mjólk á ári. Þetta er 5 þúsund tonnum af kindakjöti og 40 þúsund tonnum af mjólk meira en innanlandsmarkaðurinn þolir, þótt niðurgreiddur sé.

Við skulum hugsa okkur, hvernig ástandið væri, ef við hefðum verið eins heppnir og Svíar. Bændum hefði fækkað um 40% í stað 14% og þeir væru nú 3000 í stað 4400. Þeir mundu framleiða 10 þúsund tonn af kindakjöti og 80 þúsund tonn af mjólk.

Reynir Hugason bendir í grein sinni á, að þetta sé einmitt það magn, sem innanlandsmarkaðurinn þolir. Hann bendir líka á, að 1400 umframbændur hafi í laun 5 milljarða króna, einmitt hið sama og ráðgerðar útflutningsuppbætur á árinu.

Það mætti sem sagt afnema útflutningsuppbæturnar og borga fyrir sama fé 1400 bændum full laun fyrir að leggja niður bústofn og hætta búskap. Og þá þyrftu bændur ekki að greiða þá 5 milljarða króna, sem á vantar, að útflutningsuppbæturnar dugi.

Ef þróunin síðustu fimmtán árin hefði verið hin sama hér og í Svíþjóð, væri landbúnaðurinn ekki langstærsta vandamál þjóðarinnar. Þá nytu bændur betra almenningsálits. Þá væri landið ekki eins ofbeitt. Og þá væru lífskjörin hér mun betri.

Árið 1960 byrjaði viðreisnarstjórnin og með Ingólf Jónsson á Hellu sem landbúnaðarráðherra. Þá var komið á þeirri sjálfvirkni í útflutningsuppbótum, stíflu Ingólfs, sem hefur reynzt vera örlagaríkustu mistökin í opinberri landbúnaðarstefnu á Íslandi.

Árið 1960 var skakki póllinn tekinn í hæðina. Þá hófst hin stjórnlausa aukning á framleiðslu óseljanlegra landbúnaðarafurða. Síðan þá hefur jörðum í ábúð ekki fækkað um nema 50 á ári í stað 150, sem verið hefði við eðlilega þróun.

Í nærri tvo áratugi hafa Ingólfur og arftakar hans, svo og allir forustumenn bænda í Búnaðarfélagi og Stéttarsambandi hamrað á framleiðsluaukningu sem allra meina bót í landbúnaði. Þetta fríða lið hefur hrakið bændur fram á hengiflugið.

Það var fyrst í fyrra, að forustumenn bænda og landbúnaðarstjórnendur hins opinbera snéru við blaðinu og fóru að prédika samdrátt. Þá var Dagblaðið í nærri þrjú ár búið að skamma þá og gera grín að þeim fyrir þáverandi stefnu.

Það voru bændur sjálfir, forustumenn þeirra og ráðherrar, sem báru ábyrgðina á hinni röngu stefnu gegndarlausrar framleiðsluaukningar. Neytendur og skattgreiðendur mögluðu, en urðu að borga brúsann.

Í fyrra komst vitleysan út yfir þann þjófabálk, að bændur urðu sjálfir að byrja að borga brúsann. Þá brást sjálfvirkni útflutningsuppbótanna og augu ráðamanna bænda opnuðust. En þá var ekki lengur hægt að leita til skattgreiðenda.

Bændur standa því andspænis gífurlegri skerðingu á lífskjörum. Sú skerðing mun standa, unz tekizt hefur að finna leið til að koma jörðum úr ábúð í stórum stíl, án þess að bústofn aukist þess vegna á öðrum jörðum.

Dagblaðið hefur margoft bent á ýmsar slíkar leiðir, ráðamönnum bænda til mikils hugaræsings.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið