Íslendingar munu vafalítið halda áfram að flykkjast til sólarstranda Spánar og spænskra eyja eins og ekkert hafi í skorizt. Þeir munu hitta brosandi ferðafólk og starisfólk og skemmta sér hið bezta. Þeir munu áfram líta á þessa staði sem paradís norrænna flóttamanna.
Því miður munu fáir.ferðamannanna hugsa til þjóðskipulagsins á Spáni. Aftökur stjórnmálaandstæðinga ríkisstjórnarinnar þar munu lítil sem engin áhrif hafa á ferðamannastrauminn til Spánar og spænskra eyja. Ferðamennirnir munu hér eftir sem hingað til neita að lita á hinar köldu staðreyndir að baki gerfibrosi túrismans.
Sumir eru meira að segja svo forhertir að segja, að hinir elskulegu Spánverjar þurfi styrka stjórn og aga, eins og sumir sögðu um Grikki á sínum tíma, þegar þeir bjuggu við harðstjórn hershöfðingja. Lögregluríki verða seint óvinsæl af ferðamönnum, því að járnaginn veitir þeim vissa tryggingu og öryggi.
Það er einkar athyglisvert, að gamlingjanum Franco og falangistum hans skuli hafa tekizt að halda uppi grimmdarlegi harðstjórn á Spáni þrátt fyrir hið mikla samband við umheiminn, sem felst í ferðamannastraumnum. Því miður eru ferðamenn sízt hæfir til að opna lokað þjóðskipulag. Þessa mættu minnast þeir menn, sem telja, að ferðamannastraumur til Austur-Evrópu muni leiða til þess, að stjórnvöld þar slaki á klónni gagnvart þegnum sínum.
Síðan nasisminn og fasisminn biðu ósigur í síðari heimsstyrjöldinni, hefur falangisminn á Spáni verið mikil tímaskekkja í Vestur-Evrópu. Gamla stjórnin í Portúgal var bara venjulegt afturhald, sem komst hvergi í harðneskju í samanburð við stjórnina á Spáni. Sú ríkisstjórn fer sínar fáránlegu leiðir, hvað sem páfar segja og hvað sem vestrænar ríkisstjórnir segja.
Aftökurnar á Spáni sýna, að ekki er lengur unnt að líta á stjórnarfarið á Spáni sem einhverja sérvizku, sem komi Vesturlöndum ekki við. Stjórnvöld á Vesturlöndum geta ekki lengur stuðlað að nánu viðskiptasamstarfi og óbeinu varnarsamstarfi við Spán. Ríkisstjórnir Vesturlanda verða nú að fara að sýna Spánarstjórn fulla hörku í samskiptunum við hana.
Stjórn Francos á Spáni lafir raunar á bláþræði. Hún er komin úr sambandi við þjóðina og lifir eingöngu í skjóli lögreglu og hers. Hér áður fyrr hafði hún hina voldugu kaþólsku kirkju með sér, en nú er sá stuðningur fallinn brott.
Forneskja Spánarstjórnar er öllum ljós eftir atburði síðustu daga. Franco og menn hans hlusta ekki einu sinni á páfann og hvað þá á forustumenn ríkja Vestur-Evrópu, þegar þeir fordæma aftökurnar með sterkari orðum en tíðkast í milliríkjasamskiptum og kalla sendiherra sína heim.
Því miður hefur almenningur á Vesturlöndum og þar með Íslandi ekki næga sómatilfinningu til að hætta við eða fresta Spánarferðum sínum. Spánarbindindi ferðamanna mundi að öllum líkindum geta velt falangistum úr sessi og komið lýðræðissinnum til valda, því að efnahagur Spánar er mjög háður túrismanum. En ferðamenn eru ekki menn til slíks.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið