Steingrímur til bóta.

Greinar

Skjótur stjórnmálaframi Steingríms Hermannssonar er dæmi um, hvernig stjórnmál geti gengið í ættir. Steingrímur hefur vafalaust andað að sér stjórnmálum í föðurgarði og síðan notið Hermannsnafnsins fyrstu skrefin í Framsóknarflokknum. Hann er meira að segja þingmaður kjördæmis Hermanns Jónassonar.

Fyrst og fremst hefur Steingrímur hafizt í Framsóknarflokknum af eigin verðleikum, erfðum og áunnum. Hann hefur unnið sig upp af óvenjulegum dugnaði og ótrúlegum hraða. Hann fór seint af stað, varð fyrst þingmaður fyrir hálfu áttunda ári. Og núna er hann orðinn flokksformaður, aðeins fimmtugur að aldri.

Á ferli sínum í flokknum hefur Steingrímur smám saman safnað að sér hirð manna, sem bera mikið traust til hans. Jafnframt hefur honum tekizt að umgangast hina eldri menn flokksins með nægilegri lagni til að verða sjálfkjörinn eftirmaður Ólafs Jóhannessonar. Slíkt er ekki auðvelt í gömlum og þreytulegum flokki.

Formannaskiptin eru trúlega til bóta, bæði fyrir Framsóknarflokkinn og þjóðina. Steingrímur er maður tæknialdar, þéttbýlis og iðnaðar, ekki dreifbýlis og landbúnaðar. Hann mun reyna að breyta flokknum úr flokki einnar stéttar og eins fyrirtækis.

Sem ráðherra í rúmlega hálft ár hefur Steingrímur haft töluvert góð áhrif á Framsóknarflokkinn. Það var frá honum og hans mönnum, sem hinar athyglisverðu efnahagstillögur Framsóknarflokksins komu í byrjun þessa árs. Í einu vetfangi var efnahagsstefnu flokksins breytt úr forneskju í nýtízku.

Sem landbúnaðarráðherra í rúmlega hálft ár hefur Steingrímur innleitt örlítinn vott af skynsemi, þann, að offramleiðsla skuli afnumin. Þetta er svo sem ekki stórt skref, en þó stórt af manni úr flokki landbúnaðar og Sambands íslenzkra samvinnufélaga.

Engin siðbylting í flokknum mun fylgja í kjölfar Steingríms Hermannssonar. Slíkrar byltingar er ekki að vænta af fimmtugum manni. En í hirð hans eru yngri menn, sem sumir hverjir taka alvarlega baráttuna gegn spillingu í íslenzkum stjórnmálum. Of snemmt er að spá um áhrif þessara manna, en ekki veitir Framsóknarflokknum af siðvæðingu.

Ein örlagarík mistök hanga Steingrími um háls og munu hanga þar áfram. Það er þörungaverksmiðjan á Reykhólum, sem Steingrímur lét byggja handa kjósendum sínum. Þetta var pólitísk verksmiðja, byggð upp á rangan hátt, þrátt fyrir aðvaranir þess vísindamanns, sem lengst og mest hafði rannsakað möguleika á þörungavinnslu á Reykhólum.

Þegar Krafla var reist, var anað áfram í skorti á vísindalegri þekkingu og þótti hneyksli. Þörungavinnslan var að því leyti verri, að þar var anað áfram þvert ofan í vísindalega þekkingu. Þannig séð er Þörungavinnslan meira hneyksli en Krafla, þótt minni fjármunir færu þar í súginn.

Þess má vænta, að Steingrímur hafi lært nokkuð af Reykhólaævintýrinu og að betri siðir verði framvegis í heiðri hafðir. Hann hefur tekið við ábyrgðarmiklu hlutverki og er ekki líklegur til að sofna á verðinum. Hann er fjörefnasprautan, sem Framsóknarflokkurinn þarf á að halda.

Steingrímur hefur tekið við litlum og lítt klofnum flokki á rólegri siglingu hægra megin við miðju. Steingrímur mun tæpast breyta þeirri átt, heldur vinda upp segl og koma skútunni á skrið.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið