Styrjaldarstefna hins sviðna lands hefur stundum verið rekin af herjum á undanhaldi. Þeir eyða öllu lífi, verðmætum og ræktarlandi á undanhaldinu til að gera fjandmönnnnum erfiðara fyrir og rýra gildi landvinninga þeirra. Þetta er einn viðurstyggilegasti þáttur styrjalda.
Vaxandi grunur leikur á, að fjandmenn okkar í þorskastríðinu reki styrjaldarstefnu hins sviðna lands. Eitt sönnunargagn um það hefur verið slætt upp á Íslandsmiðum. Það er vesturþýzk varpa, klædd að innanverðu með fínriðnu neti, sem hleypir engum smáfiski í gegn.
Í Grimsby hefur brezkur togaraskipstjóri haldið því fram, að margir starfsbreður sínir noti slík gereyðingartæki á Íslandsmiðum. Þeir segist gera þetta til að sópa sem mestum fiski upp, meðan þeir hafa enn aðstöðu til að veiða innan 50 mílna fiskveiðimarkanna við Ísland. Togaraskipstjórinn segir.að með þessu séu þeir að eyðileggja Íslandsmið.
Það er mjög áríðandi, að íslenzk stjórnvöld taki nú til óspilltra málanna við að afla sönnunargagna. Það mætti gera með því að ná upp vörpum þeim, sem varðskipin hafa skorið frá brezku og vesturþýzku togurunum, annað hvort um leið og þær eru skornar frá eða með því að slæða þær upp á eftir. Þetta getur reynzt ákaflega erfitt verk og kostað mikinn tíma og fyrirhöfn. En samt verður það að takast, því að mikið er í húfi. Ef unnt reyndist að fjölga sönnunargögnum með þessum hætti, væri það rothögg á málstað fjandmanna okkar í þorskastríðinu.
Bretar hafa nú eftirlitsskip, dráttarbáta og freigátur á Íslandsmiðum. Þessum mikla flota ber að fylgjast með því, að veiðarfæri togaranna, sem eru undir hans vernd, séu í samræmi við ákvarðanir fiskveiðinefndar Norðaustur-Atlantshafs. Ef stjórnendur eftirlitsflotans láta, þrátt
fyrir gruninn, hjá líða að fylgjast með þessu, gera gereyðingartækin upptæk og draga togaraskipstjórana fyrir dóm, eru þeir orðnir vitorðsmenn í glæpnum-
Hingað til hafa íslenzk stjórnvöld staðið sig dapurlega í þessu máli, alveg eins og þau stóðu sig illa, þegar brezki eftirlitsflotinn braut siglingareglur gagnvart íslenzkum varðskipum. Þá var engin tilraun gerð til að afla sönnunargagna og leggja þau fyrir alþjóðlegarstofnanir, sem fjalla um siglingareglur. Og nú hefur engin tilraun verið gerð til að afla sönnunargagna um fíngerðu vörpupokana og senda alþjóðlegum stofnunum.
Ríkisstjórninni ber nú að vakna af værum blundi og gera harða hríð að fjandmönnum okkar á alþjóðlegum vettvangi. Ef við getum aflað sönnunargagna um viðurstyggilega gereyðingarstefnu af hálfu fjandmanna okkar, eru þeir komnir í hengingaról, sem þeir geta ekki snúið sig úr. Þeir geta ekki skotið sér undan ábyrgð, því að þeir áttu sjálfir að annast eftirlitið.
Bretar og Þjóðverjar hafa hvorir í sínu lagi háð marga hildi um aldirnar og sjaldnast beitt hinum fínustu aðferðum. Það væri sögulegt samhengi í því, ef upp kæmist að enn á gamals aldri væru þessi heimsveldi að beita styrjaldarstefnu hins sviðna lands.
Jónas Kristjánsson
Vísir