Starfsmenn kaupi smiðju

Greinar

Skemmtilega á óvart hafa komið fréttirnar um, að hagnaður og skattar Landssmiðjunnar vaxa með hverju árinu. Hagnaðurinn varð 16,3 milljón krónur árið 1976 og opinberu gjöldin 10,5 milljón krónur árið 1977. Því miður er sjaldgæft, að opinber fyrirtæki standi sig svona vel.

Landssmiðjan er síður en svo baggi á ríkissjóði. Hún er óháð fjárlögum ríkisins og er í rauninni rekin eins og hlutafélag. Hún veitir um 100 manns atvinnu og er því mikilvægur þáttur atvinnulífs Reykjavíkur. Því væri fráleitt að leggja hana niður.

Ekki er heldur ástæða til að ætla, að sú sé hugmynd nefndarinnar, sem hefur kannað hagi ýmissa ríkisfyrirtækja og lagt til, að ríkið hætti rekstri Landssmiðjunnar. Þar er áreiðanlega aðeins um að ræða ósk um breytt eignar- og rekstrarform smiðjunnar.

Sú niðurstaða er eðlileg. Á sínum tíma átti ríkisrekstur smiðjunnar sér ýmsar skýringar, sem gilda ekki lengur. Vélsmíði er orðin mikilvæg og víðtæk iðngrein á gömlum merg. Hún getur staðið á eigin fótum. Ástæðulaust er að láta ríkið sem slíkt reka eina af mörgum vélsmiðjum.

Svo vel vill til, að við augum blasir, hverjir eru hinir réttu eignaraðilar. Það eru fyrst og fremst starfsmennirnir og að auki helztu viðskiptavinir hennar. Þessir aðilar hafa mestra hagsmuna að gæta. Þeir eru því eðlilegir eigendur og viðtakendur hagnaðarins.

Nú þarf að fá óháða nefnd til að meta verðmæti eigna Landssmiðjunnar og ákveða, hver sé eðlileg heildarupphæð hlutafjár með hliðsjón af eignunum. Mismuninn þarf ríkissjóður að lána hinu nýja hlutafélagi til allmargra ára.

Starfsmenn ættu að skipta milli sín verulegum hluta af hlutafénu. Einhverja lánafyrirgreiðslu þurfa þeir til að dreifa byrði kaupanna á tvö eða þrjú ár. Sömuleiðis þarf að hafa nokkurn sveigjanleika í hlutafjármagni hvers og eins, því að starfsmennirnir hafa vafalaust misjafnan áhuga á að fórna áhættufé í atvinnurekstur.

Að svo miklu leyti sem hinir 100 starfsmenn Landssmiðjunnar hafa ekki bolmagn til að kaupa smiðjuna með þessum hætti, má kalla til skjalanna þá viðskiptaaðila, sem mesta hagsmuni hafa af framhaldi rekstrar smiðjunnar. Í þeim hópi eru fiskimjölsverksmiðjur, loftverkfæranotendur og útgerðarmenn.

Þessa hugmynd má framkvæma með því að láta hlutafjárútboð fara fram í þrennu lagi. Fyrst fái starfsmenn Landssmiðjunnar forkaupsrétt með lánafyrirgreiðslu. Síðan fái viðskiptaaðilar næsta forkaupsrétt, með nokkurri hliðsjón af viðskiptamagni hvers þeirra. Loks verði hlutafé boðið til sölu á almennum markaði, ef eitthvað verður afgangs.

Ríkið fær á nokkrum árum greitt heildarverðmæti eigna Landssmiðjunnar og getur notað féð til annarra verkefna, sem ætla mætti, að séu nær verksviði ríkisins en rekstur vélsmiðju á almennum viðskiptamarkaði.

Slík eigendaskipti ættu að verða starfsmönnum Landssmiðjunnar gullið tækifæri til að taka á herðar meiri ábyrgð, meiri tekjumöguleika og meiri þátttöku í mótun eigin vinnustaðar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið