Stærstu málin gleymdust.

Greinar

Ekki er hægt að segja annað en að vel hafi tekizt að leysa verkfallið á veiðiflotanum, þótt málsaðilar hafi alveg sparað sér að kafa niður í grundvallarvandamál sjávarútvegsins, önnur en sjóðakerfið illræmda.

Útlitið var dökkt, þegar verulegum hluta flotans hafði verið lagt til að mótmæla fiskverðinu, sem fulltrúar sjómanna höfðu nýlega samið um í verðlagsráði. Er sjómenn höfðu þannig afneitað fulltrúum sínum, virtist ekki auðvelt að finna lausn.

Salómonsdómurinn fannst hins vegar í góðum samlögum ríkisstjórnar og ráðuneytis annars vegar og sjómanna hins vegar. Ríkisstjórnin tók að sér að tryggja að hið nýja verð ráðsins fæli í sér þær 3,5% kjarabætur, sem ráðið taldi sig vera að veita, en sjómenn efuðust um, að væri rétt reiknað.

Jafnframt lofaði ríkisstjórnin að sjá um, að endurskoðunin á sjóðakerfi sjávarútvegsins yrði búin fyrir 1. desember í ár. Og þjóðhagsstjóri gaf undir fótinn með, að olíusjóðurinn og tryggingasjóðurinn yrðu lagðir niður. Þetta eru líklega beztu fréttirnar frá friðarsamningunum.

Að svo miklu leyti sem sjóðakerfið hefur verið notað til að koma aflaverðmætum undan hlutaskiptum, er það blekking gagnvart sjómönnum og mismunun á útgerðarfyrirtækjum. Skipin hafa notið þessa fjár í hlutfalli víð eyðslu á olíu og öðrum rekstrarvörum og í hlutfalli við skuldirnar, sem á skipunum hvíla. Þetta hefur gerzt á kostnað þeirra skipa, sem mestum afla hafa náð með minnstum tilkostnaði.

Með þessu kerfi var verið að slíta sundur sambandið milli rekstrarhagkvæmni og tekna. Búið var að koma á hálfgildings ríkisrekstri í útgerðinni og sljóvga tilfinningu útgerðarstjóra og skipstjóra fyrir hagkvæmni í rekstri. Afnám þessa rotna kerfis verður áreiðanlega til mikilla bóta.

Í friðarsamningunum var hins vegar engin tilraun gerð til að svara áleitnum spurningum, sem sjómenn og fiskverkafólk hafa verið að spyrja. Spurt hefur verið, hvers vegna tekjur sjómanna eru hér lægri en í nágrannalöndunum, þótt aflinn á hvern sjómann sé hér helmingi meiri en þar. Spurt hefur verið, hvers vegna fiskverð sé lægra hér en í nágrannalöndunum. Og spurt hefur verið, hvers vegna tekjur fiskverkafólks séu lægri hér en í nágrannalöndunum, þótt útflutningsverð fiskafurða sé hið sama.

Það væri áreiðanlega verðugt verkefni fyrir hagfræðinga ríkisins að glíma við þessar þrautir. Þjóðin þarf að fá að vita, hvort útgerð og fiskvinnsla séu verr rekin hér en annars staðar. Þjóðin þarf að fá að vita, hvort ríkið skattleggur þessa starfsemi óhóflega til að halda uppi annarri og óarðbærri starfsemi í landinu. Og þjóðin þarf að fá að vita, hvort ríkið beitir kolrangri gengisskráningu til að blóðmjólka sjávarútveg og fiskiðnað.

Líklegast er, að skýringuna sé ekki að finna í rekstri útgerðar og fiskiðnaðar, heldur í hinu tvennu, óhóflega fjárfreku ríkisvaldi og kolrangri gengisskráningu. En þetta þurfa sérfræðingar að meta, því að sjómenn og aðrir landsmenn eiga kröfu á að fá að vita þetta.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið